apríl 2003 - færslur


Sér grefur gröf sem grefur

Í dag (1. apríl) féll ég fyrir aprílgabbi á vefnum. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hugmyndin að gabbinu kom frá mér sjálfum! Framkvæmdin var hins vegar með slíkum sóma að ég lét blekkjast. Meira um það síðar.

Tvísköttun

Ég þorði ekki annað þegar ég fékk hótanabréfið frá innheimtumanni ríkissjóðs (sjá neðar) en að borga í panikkasti fyrir helgina. Hver veit nema eindaginn ógurlegi reyndist vera 1. apríl og hnéskeljarnar á mér yrðu brotnar í beinu framhaldi. Tók sénsinn og greiddi inn á reikning B (sjá enn neðar). Nú var ég að fá launaseðil og þar lætur innheimtumaður ríkissjóðs til skarar skríða og tekur þessar 98.438 af mér. Þar með er ég búinn að borga þær tvisvar. Jibbí. Og í ofanálag er enn dregið af mér í rangan lífeyrissjóð. Pirr.

Týndur massi

Ég hef alltaf verið frekar grannur, en fyrir ári eða svo var kyrrsetan farin að segja fullmikið til sín og magavöðvarnir orðnir heldur framsettir. Ég ákvað því að reyna að gera eitthvað í málunum, varð aðeins meðvitaðri um það hvað ég borðaði og fór að hreyfa mig reglulega. Síðastliðið sumar hljóp ég einn, en í vetur var ég í samfloti með Langhlauparafélagi Reykjavíkur 1-2 sinnum í viku.

Minningarbrot

Móðuramma mín lést skömmu fyrir páska. Vitað var að hverju stefndi og við bræður heimsóttum hana með mömmu á pálmasunnudag í síðasta sinn. Hún skildi svo við morguninn eftir. Kistulagning var síðasta vetrardag og var um leið ígildi jarðarfarar hér í höfuðborginni. Ég fór ekki vestur í Bolungarvík þar sem hún var jarðsett við hlið afa á annan sumardag. Þetta var fyrsta jarðarförin sem ég fer í. Má ekki líta á það sem vissa blessun? Ég væri að ljúga ef ég héldi því fram að ég hefði ekki meyrnað meðan á athöfninni stóð.