Háls, höfuð og skrokkur í lagi, hár úfið

Vaknaði glaður og hress eftir grímuball. Náði meira að segja að sofa út og gladdist mjög yfir því. Það er eiginleiki sem ég tapaði að mestu niður við þrítugsafmælið, nú kemur allt of oft fyrir að um helgar vaknar maður klukkan 8 eða ámóta snemma þótt maður geti sofið út (og þyrfti þess oft).

Ég átti allt eins von á að vakna með hálseymsli dauðans, því fari maður á ball í rifnum gallabuxum og með rokkarahárkollu þá head-bangar maður. Mikið. Með tilþrifum.

Gladdi mig einnig að vakna óþunnur. Drakk þó nokkurn vegin bjórskammt mennaskólaáranna og það hratt (hafði matreitt kalkúnastrimla með Fajitas kryddi og hrísgrjónum, vel spæsí og þorstavekjandi). Skipti hins vegar yfir í kókið um miðnættið og tók til við að dansa, hoppa og skoppa út áfenginu.

Í gær var sem sé annað-hvert-árlega grímuballið sem við fyrrum þjáningarsystkin úr kennslufræðinni sækjum. (Er til íslenskt orð yfir biennial?) (Við leitina að þessum link komst ég að því að biannual getur bæði þýtt annað hvert ár og tvisvar á ári, fróðlegt.) Fyrsta árið var ég Rauðhetta litla, næst engill og nú ákvað ég eftir mikla og djúpa sálarrannsókn að vera Garth úr Wayne's World.

Rótina að þeirri hugmynd má rekja til forláta hárkollu sem ég fékk gefins í tvítugsafmælinu mínu (eftir miðja síðustu öld). Það er skömm frá að segja en ég var enga stund að grafa upp hárkolluna, vissi satt best að segja nákvæmlega hvar hún var. Kannski rétt að taka samt fram að ég hef ekki sett hana upp síðan einhvern tíman á áðurnefndri öld. Til samanburðar var ég hálfan dag að finna vegabréfið mitt fyrir stuttu síðan!

Ég gat dregið fram gömul gleraugu með svörtum umgjörðum sem ég notaði lengi sem íþróttagleraugu. Tek fram að ég gekk aldrei með þau á almannafæri. (Þetta var ekki alveg það snemma á öldinni sem leið).

Síðan var það sérhannaður bolur, faglega rifnar gallabuxur og trommukjuðar sem fullkomnuðu blekkinguna.

The Garth will rise again

Upphitunarpartý var haldið hjá Oddnýju og Ara. Þaðan var rútað upp í golfskálann í Grafarholti þar sem gestir úr hinum þremur partýunum mættu og drukku og dönsuðu fram eftir nóttu.

Ég þekkti reyndar fáa nema kennsluklíkuna í upphitunarpartíinu, en reynslan hefur kennt mér að á ballinu hittir maður alltaf einhverja sem maður átti ekki von á. Svo reyndist einnig nú, því stór hópur vinnufélaga minna var þarna uppstrílaður og sperrtur. Svo hitti ég engil á barnum sem var alveg viss um að hún ætti að þekkja mig en mundi ekki hvaðan... kom í ljós að við erum líka vinnufélagar! Alltaf mannglöggur hann Toró!

Annars er rétt að taka fram af minni alkunnu hógværð að ég fékk mikið hrós fyrir búninginn og allir virtust kveikja strax á því hver ég ætti að vera. (Sumir kölluðu mig reyndar Wayne, en það er innan skekkjumarka). Hins vegar þekktu líka allir strax hver ég væri (nema reyndar áðurnefndur engill). Sem segir mér það að ég sé líklega töluverð Garth týpa dagsdaglega!

Í stuttu máli var þetta mjög skemmtilegt kvöld. Hljómsveitin fín og stuð gott.

Örfá sýnishorn:

Oliver Marley, sonur BobLögga og jarðfræðingurKáboj og lögga
Wilma og súmókappinn gestgjafinnVirðuleg frú í boltanumLéttklæddur gestgjafi með skegg
Guðsmenn og aðrir tjúttararLöngu komið fram yfir háttatíma hjá bangsa litlaÞað léttist vinstri brúnin á Bjarna við að hitta Garth

Leigubílstjórinn sem ók mér heim um nóttina kom mér í opna skjöldu með því að fara að spyrja mig hvort þetta væri góður golfvöllur! Hvers konar golfiðkun hann hélt að maður með úfið hár, í vinnuskyrtu, rifnum gallabuxum og með trommukjuða, stundaði um nótt í kolniðamyrkri í byrjun nóvember veit ég ekki, og er ekki viss um að ég vilji vita.

Mikið schwakalega getur maður samt orðið aumur í hársverðinum af því að vera með svona hárkollu heilt kvöld!

Fleiri hárkollur voru ekki mátaðar það kvöldið.


< Fyrri færsla:
Buxum slátrað og skellt á skeið
Næsta færsla: >
Bjórþrautaganga og lénsuppnám
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry