Lénsyfirráð og meðmæli

Eftir töööluvert bras og þó nokkur símtöl til Bandaríkja Norður Ameríku hef ég tryggt mér yfirráð yfir léninu thorarinn.com fram í desember á næsta ári og það sem ekki er síður mikilvægt, byrja með hreint borð hjá nýjum skráningaraðila (ótrúlegt hvaða magn af úreldum upplýsingum Network Solutions gat dregið fram í tilraunum mínum til að endurnýja hjá þeim).

Þórarinn mælir með:

Jólahlaðborði Sommelier
Fór þangað í gærkvöldi með foreldrunum. Hrein snilld. Ég er ekki mikill jólahlaðborðamaður, hef svo sem ekki vikist undan því að fara á slíkar samkomur en er heldur ekkert að sækjast eftir þeim, fór t.d. ekki á neitt hlaðborð fyrir jólin í fyrra. Mér finnst oft vera allt of mikill verksmiðjubragur á þeim, ægir öllu saman og svona misgott það sem boðið er upp á. Þarna á Sommelier var hins vegar mjög afslöppuð stemmning, hlutfallið þjónar/gestir hátt og stjanað við okkur. Sátum í rólegheitum í einhverja þrjá tíma og tíndum í okkur kræsingarnar. Og aðalatriðið er auðvitað að maturinn var bara rosalega góður! (Líklega ekki ódýrasta hlaðborðið í bænum, en örugglega eitt það allra besta.)

City of God
Jón Heiðar hringdi í mig á föstudagskvöldið og dró mig með á þessa brasilísku eðalmynd (þurfti reyndar ekki mikið að hafa fyrir því að plata mig af stað). Töff mynd, góð saga, flott myndataka og stemmning öll, hörku tónlist og spennandi mynd. Ofbeldið er töluvert, en það er samt ekki verið að velta sér upp úr því með ódýrum hætti. Sagan er sögð með skemmtilegum hætti með flakki fram og til baka í tíma. Góð mynd.

Two Towers - Extended version
Sá þessa hjá Jóni Heiðari (sem virðist farinn að gegna lykilhlutverki í menningarlífi mínu...) fyrir viku. Bíóútgáfan var flott, en þessi er miklu flottari. Hún er rúmum hálftíma lengri og hann fer eiginlega allur í að dýpka persónurnar og segja stærri hluta af sögunni sem liggur að baki því sem gerist. Stríðsatriðin eru í öllum aðalatriðum eins. Persónulega finnst mér "lengingin" í þessari mynd gera hana að betri heild, miklu frekar en viðbæturnar í fyrstu myndinni sem voru meira stakar senur sem höfðu minna að gera með framvinduna. Svo er bara að sjá hvort einhver gefi manni hana í jólagjöf...

Egils Malt jólabjór
Missti hreinlega af honum í fyrra og fór því sérstaka ferð í Ríkið til að kaupa hann þegar ég frétti af honum núna í lok nóvember. Varð ekki fyrir vonbrigðum.

Jólamandarínum
Ómissandi.

Fleira er ekki í neytendahorni dagsins.


< Fyrri færsla:
Ferðasaga klár, lénamál óklár
Næsta færsla: >
Sjálfstortúr og tannlæknaheimsókn
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry