Kvefuð milliríkjadeila

Eins og opinberum starfsmanni sæmir leyfir maður sér ekki að vera lasinn á virkum dögum, heldur tekur helgarnar í það. Um kvöldmatarleytið á laugardaginn fór ég að fá hálsbólgu og nefrennsli og kvefið magnaðist þegar leið á sunnudaginn.

Á laugardeginum var systkinabröns á Fálkagötunni þar sem ég mætti með hina víðfrægu mexíkönsku kjúklingasúpu sem ég hafði verið að malla á föstudagskvöldinu. Vilborg frænka (og miðpunktur athyglinnar) gerði lítið annað en sofa og vera úrill þess á mili.

Við föðursystkini hennar tókum síðan að okkur að ganga með hana um vesturbæinn meðan foreldrarnir skruppu í verslanir, prinsessan lét lítið fyrir sér hafa og steinsvaf á göngunni - þrátt fyrir systkinaerjur og annað fjör á leiðinni.

Um kvöldið fór ég svo að finna fyrir hálsbólgu og fyrir vikið varð kaffihúsaferð kvölsins skammarlega stutt, stuð mitt í lágmarki og slagveðursrigning ekki til að auka á skemmtanaþorstann.

Á sunnudeginum mjakaðist hálsbólgan yfir í nefrennsli og hósta og um kvöldmatarleytið var ég kominn með hitaslæðing. Ég var sannast sagna feginn að sýning kvöldins féll niður því ég hefði ekki verið í miklu stuði á þeirri sýningu. Skrapp þess í stað til Margrétar og Sigmars og þar sátum við hress og glaðbeitt, þau þunn og ég með hita.

Í morgun virtist hitinn horfinn og eftir stendur bara "venjulegt" kvef, þannig að ég er mættur í vinnu og ber mig hetjulega.

Mér skilst að ég sé að verða að milliríkjadeilu - fróðlegt.


< Fyrri færsla:
Messufall á sunnudegi
Næsta færsla: >
Rennr nefs úr dropafjöld
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry