Helgi að Hreðavatni

Um helgina var ég uppi í Borgarfirði, nánar tiltekið í skála Læknafélagsins við Hreðavatn. Pabbi og mamma eru með hann á leigu út vikuna og við systkinin vorum þar öll um skemmri eða lengri tíma um helgina.

Það hittist reyndar þannig á að þessa helgi fóru þrjú okkar systkinanna í útilegu (sitt í hverju lagi) á Snæfellsnesi. Ég hélt mig hins vegar hjá gömlu hjónunum í góðu yfirlæti.

Á föstudeginum ók ég uppeftir um kvöldið og Margrét systir og Anna Friðrika vinkona hennar komu um svipað leyti og ég. Grill og notalegheit í alveg frábæru veðri og við gistum öll í bústaðnum. Um hádegi á laugardeginum fóru gellurnar á Snæfellsnes að túristast og við sem eftir sátum tókum drjúga ökuferð um Borgarfjörðinn og túristuðumst sömuleiðis.

Um þrjúleytið um laugardagsnóttina birtust svo Elli, Halldóra og Vilborg. Þau höfðu verið í tjaldútilegu með vinafólki sínu en það var orðið kalt í tjaldinu og Vilborg óvær, þannig að þau ákváðu að pakka saman og koma sér undir þak.

Á sunnudagsmorgun vaknaði ég því við það að Vilborg lék á alls oddi og hélt því áfram undir vökulum augum afa, ömmu og mín - meðan foreldrarnir lögðu sig.

Vilborg á alls oddi

Ég og afinn fórum svo í trimmferð sem breyttist í óvissuferð, en báðir komum við aftur og enginn okkar dó. Um það leyti sem við vorum búnir að láta renna í pottinn til að láta þreytuna líða úr okkur hafði Sigmar samband. Hann hafði verið í djammferð með sínum vinahópi (á Snæfellsnesi!) og bað um að vera sóttur í Borgarnes. Amman og Elli renndu eftir honum meðan ég og afinn létum fara vel um okkur í pottinum. Ekki minnkaði fjörið þegar Vilborg kom ofan í til okkar og var í miklu stuði, buslaði og skríkti.

Vilborg í potti

Skömmu síðar birtust svo Margrét og Anna Friðrika eftir vel heppnaða ferð um Snæfellsnesið.

Þegar þeir bræður skiluðu sér lá leiðin beint í pottinn. Að þessu sinni lét Vilborg sér nægja að fylgjast með af bakkanum og fara í purrkeppni við Sigmar frænda.

Sigmar tjáir sig

Vilborg stillir nuddið

Skömmu síðar gubbaði daman yfir sig og ömmu sína, en af tillitssemi við orðspor hennar verða engar myndir af þeim atburði birtar hér.

Frábærum degi lauk svo með allsherjar grillveislu og við höfuðborgarbúarnir tíndumst smám saman suður á bóginn.

Ég held ég hafi sjaldan eða aldrei séð Vilborgu frænku í jafnmiklu stuði. Hún lét reyndar vita af því þegar hún var orðin þreytt eða svöng en þess á milli var hún í fantaformi, enda naut hún þess greinilega að vera miðpunktur athyglinnar.


< Fyrri færsla:
Friðhelgi rofin
Næsta færsla: >
5 km: 29:30 mín
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry