Skógarhringur og aðflug: 24 mín

Hljóp í dag hring í Selskógi (eða Egilsstaðaskógi eins og hann hét í mínu ungdæmi). Með leiðinni í skóginn er þetta á að giska 4,5 km. Það er töluvert meiri þrívídd í þessari hlaupaleið með beygjum og brekkum (bæði upp og niður) heldur en malbikshringnum mínum í Vesturbænum. Bæjarstarfsmenn hafa reyndar af skömmum sínum aukið þrívíddina helst til mikið með því að bera stórgrýti í stíginn svo maður má hafa sig allan við að klöngrast milli hnullunganna án þess að brjóta bein og limi.

Pabbi rifjaði það upp rétt áður en ég lagði í hann að fyrir rúmu ári síðan hefði ég fullyrt að fyrri hringurinn væri nú bara upphitun, það væri algert lágmark að fara tvo. Þetta olli mér nokkru hugarangri á leiðinni en ég huggaði mig við það að þá var ég búinn að vera að hlaupa allan veturinn í skokkhópi með yfirlýstum brjálæðingum. Í dag lét ég einn hring nægja. Hins vegar er ljóst að ég verð að hlaupa tvo hringi áður en vikan er úti.

Það jafnast annars fátt á við það að hlaupa í þéttum birkiskógi í úðanum (eins og staðkunnugir vita rignir aldrei á Héraði - en stundum verður úðinn helvíti þéttur) og ég tala nú ekki um þegar stórgrýtinu linnti loks og moldarstígar og timburkurl leystu það af hólmi sem undirlag. Skógarlyktin engu lík og lyptir geði hlaupara.


< Fyrri færsla:
Fugl dagsins
Næsta færsla: >
Vaðið yfir nýliðna daga
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry