Bræðraratleikur

Elli var hér í Danmörku í stuttri vinnuferð í síðustu viku og við ákváðum að reyna að hittast stuttlega seinnipart fimmtudags áður en hann skilaði bílaleigubílnum á Kastrup. Úr þeim hittingi varð ný tegund af ratleik, svokallaður bræðraratleikur sem fer svona fram:

Þátttakendur eru tveir, leikstjóri og bílstjóri. Leikurinn fer fram í erlendri borg sem leikstjóri þekkir ekki nema mjög takmarkað og bílstjóri alls ekkert. Bílstjóri skal aka bíl og leikstjóri má vera á reiðhjóli. Til að viðhalda spennunni skal leikstjóri eiga brýnt erindi í raftækjaverslun um það leyti sem bílstjóri kemur inn í borgina og leikstjóri skal hafa skilið kortabókina sína eftir heima.

Leikstjóri og bílstjóri mega hringja sín á milli og reyna að komast að því hvar bílstjóri er staddur og ræða hvernig þeir fara að því að hittast. Til að gera leikinn meira krefjandi er æskilegt að hann fari fram á annatíma í umferðinni og á slóðum þar sem erfitt er að finna laus stæði. Hægt er að flækja leikinn með því að leikstjóri hafi ekki nema takmarkaða inneign á farsímanum sínum.

Það þykir mjög heppilegt ef bílstjóri slysast inn á eina af fáum stærri götum sem leikstjóri þekkir. Leik lýkur ef leiksjóri og bílstjóri hittast í þröngri hliðargötu, þá skilja þeir hjól leikstjóra eftir og leita í sameiningu að bílastæði til að geta tyllt sér inn á kaffihús og taka spjall saman.

Á kaffihúsinu er mælt með því að leikstjóri rissi upp teikningu á servíettu til að auðvelda bílstjóra að komast á flugvöllinn og þannig heim.


< Fyrri færsla:
Athugasemdakerfi til prófana
Næsta færsla: >
Soldið bissí
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry