Sjónvarpsbindindi og þrumuflassbakk

Í viðleitni minni við að auka verkefnalega framlegð mína hef ég sett sjálfan mig í sjónvarpsbindindi, enda sé ég ofsjónum yfir þeim klukkustundum sem varið hefur verið í ameríska lágkúru með dönskum undirtextum á liðnum vikum. Eins og sönnum fíkli sæmir bjó ég mér samt um leið til undanþágu.

Undanþágan felst í því að ég má horfa á sjónvarp meðan ég borða.

Ekki er komin mikil reynsla á bindindið, en þó sýnist mér að sjónvarpsgláp hafi ekki endilega minnkað sem neinu nemi. Át hefur hins vegar vaxið mjög.

Í morgun tóxt mér þó loks að komast snemma í skólann og ég og mitt fólk mættum geysivel undirbúin á sameiginlegan fund stóra verkefnahópsins eftir hádegið, með þykka pappírsstafla.

Í mínum hóp erum við núna búin að skipta með okkur verkum og erum bjartsýn á að bráðabirgða tímaplanið okkar gangi upp. Það er hins vegar svartara útlit með grafíkhópinn okkar, en ég er að vonast til að það tefji okkar vinnu ekki sem neinu nemi.

Ég er búinn að búa til einfalda útgáfu af vefnum "sans look" þar sem við getum prófað okkar hugmyndir um vefstrúktúr og sett inn texta með einföldum hætti. (Einfalt hakk með PHP og textaskrám.)

Fyrst ætlaði ég að setja inn klassískan lorem ipsum texta, en hafði engan tiltækan (og í ofanálag ónettengdur). Þá rann upp fyrir mér það ljós að fyrir dönum er íslenska hálfgerð gríska, þannig að uppistaðan í textum bráðabirgðavefsins er úr gömlum Þrumuvef:

Hér þykir okkur upplagt að nota íslenskan texta til að koma dönskum frændum vorum í skilning um að þörf sé á textaskrifum þeirra til útskiptingar.

Meðal merkra viðburða í sögu félagsins er 3 vikna árshátíðarferð sem það stóð fyrir til sólgullinna stranda Portúgals haustið '92 og bauð heilum árgangi úr MA með sér. Einnig má nefna fjölmennt og velheppnað boccianámskeið síðar það haust og ýmis afrek ÞRUMU á ritvellinum (sbr. Munin, skólablað MA, '92-'93).

Félagið hefur sömuleiðis látið að sér kveða á sviði leiklistarinnar og má nefna djarfan spuna er framinn var við einróma hrifningu gagnrýnenda 22. október '92. Var þar um að ræða erótíska túlkun á tilvistarkreppu einstaklingsins í firrtu umhverfi samtímans.

Það eru notalegar minningar tengdar þessu bévítans bulli. (Hér brosir ritstjórn thorarinn.com breiðu innlægu brosi.)

Ætli ég horfi ekki á bíómynd um Open Source hugmyndafræðina í kvöld. (Hljómar skelfilega, ekki satt?)

Að sjálfsögðu kem ég við á kebabnum til þess að hafa eitthvað að borða yfir myndinni...


< Fyrri færsla:
Að drepast ofan í klofið á sér
Næsta færsla: >
Föstudagur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry