Danir... eru sprengjuóðir

Því er haldið fram að flugeldaæði okkar klakverja kringum áramótin sé einstætt í heiminum. Það kann að vera, en flugeldaæði bauna það sem af er vetri hefur komið mér í opna skjöldu. Heima puðrast upp einn og einn flugeldur fram eftir vori, en hér hefur varla liðið sú vika að ekki leiki allt á reiðiskjálfi í sprengingum.

Vissulega eiga flugeldasýningar Tívolís hluta af þessu, en ekki skjóta þeir upp flugeldum meðan þar er lokað.

Við sumar sprengingarnar veltir maður því fyrir sér hvort þetta hafi verið einhver tröllaukinn flugeldur eða hvort rokkararnir (mótorhjólagengin) séu að sprengja hvern annan upp. Miðað við skort á fréttum af slíku geri ég ráð fyrir að þetta hafi allt verið flugeldar.

Í fréttum má stundum heyra áhyggjur af smygli á flugeldum landleiðina frá Evrópu auk þeirra flugelda sem eru framleiddir hér eða fluttir inn löglega. Hver veit nema smyglararnir séu að prufukeyra bomburnar fyrir áramótasölurnar?

Boom, boom.


< Fyrri færsla:
Stúdentsræfill í Hafnarpóstinum
Næsta færsla: >
Sunnudagspiparsteikin
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry