Jólastormurinn sem hvarf

Daginn fyrir Þorláksmessu tóku veðurpostular fjölmiðlanna að vara við stórhríð og bálviðri frá Þorlák og fram yfir jólanótt. Við sáum fram á að hverfa inn í snjóskafl og halda okkur þar yfir hátíðarnar. Síðar kom í ljós að stormurinn hafði eitthvað tafist í jólaösinni en þegar hann skall svo á um allt land var það bara tímaspursmál hvenær á aðfangadag allt yrði ófært.

Þorláksmessuveðrið var með eindæmum gott. Að vísu var hörkufrost og svolítil gjóla, en bjart yfir og alveg úrkomulaust. Við systkinin brugðum okkur í útsýnisökuferð inn með Lagarfljótinu í geysifallegu veðri þar sem ég tók nokkrar stemmningsmyndir. (Sökum snúruskorts birtast þær ekki á netinu í bráð.)

Veðurspáin virtist hafa haft áhrif á innkaupaplön nærsveitunga því búðir voru svo til tómar um kvöldið, líklega vegna þess að fólk af fjörðunum og úr sveitunum hefur verið snemma í því til að forðast að lenda í storminum.

Fljótlega upp úr hádeginu á aðfangadag fóru að berast tilkynningar um messufall í kirkjum norðvestanlands vegna óveðurs og smám saman færðust messuföllin austar á bóginn. Um kaffileytið var stormurinn kominn til Húsavíkur og við farin að gjóa augum til himins og velta því fyrir okkur hvort við kæmumst nokkuð til kirkju.

Ég var farinn að sjá fram á þá sögulegu atburðarás að stormurinn brysti á um sexleytið og að allur bærinn myndi teppast inni í kirkjunni. Svo fór þó ekki og þegar söfnuðurinn hafði nuddað stírurnar úr augunum undir Heims um ból og rölt út í jólanóttina var enn hæglætisveður.

Á jóladagsmorgun hafði snjóað um það bil 2-3 sentimetrum allan sólarhringinn og ljóst að stormsins hafði gætt um allt land nema á Héraði og nágrenni.

Það er svo ekki fyrr en núna á annan í jólum sem virkilega er farið að hvessa hér, en hitastigið hefur hækkað það mikið að það er enginn skafrenningur.

Merkilegt.


< Fyrri færsla:
Ársþriðjungsyfirlit
Næsta færsla: >
Nýtt ár í léttu stressi
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry