Ársþriðjungsyfirlit

Fyrirtæki skráð á Verðbréfaþingi gefa út ársfjórðungsskýrslur með yfirliti yfir helstu lykiltölur og horfur á markaði. Ritstjórn thorarinn.com hefur nú tekið þá ákvörðun að feta í fótspor þeirra, en eðlis starfseminnar vegna er litið til síðastliðinna fjögurra mánaða, eða ársþriðjungs. Aðspurður um það hvort þetta væri fyrsta skref í átt að skráningu thorarinn.com á hlutabréfamarkaði vildi ritstjóri hvorki játa því né neita.

Fjögurra mánaða naflaskoðunartímabil er valið þar sem það er sá tími sem ég hef verið í útlandinu og ekki úr vegi að reyna að skjalfesta (þótt ekki sé nema fyrir sjálfan mig) hvað hefur reynst jákvætt og hvað neikvætt. Eflaust breytist skoðun mín á skólanum eitthvað þegar kemur fram á nýtt ár og prófin taka við, en hér eru a.m.k. mínar pælingar eins og þær líta út núna.

Jákvætt

Danmörk almennt
Ég get ekki annað sagt en það sem af er dvölinni hafi gengið vel og almennt hafi kynnin af baunum verið prýðisgóð.
Skólinn
Skólinn hefur staðist væntingar; margir áhugaverðir kúrsar í boði, fjölmargt áhugavert fólk og almennt ríkir heilmikill metnaður í skólanum að standa sig vel og styðja við nemendur. Helsta vandamálið er að velja réttu kúrsana, því þrjár annir verða fljótar að líða.
Tungumálið
Mér gekk vonum framar að komast í gang í dönskunni, en framfarir hafa síðan hægt töluvert á sér. Það kemur jafnvel fyrir að mér þyki mér fara aftur þegar ég kem engan vegin orðum að því sem ég vil segja. Skriflegri dönsku hefur hins vegar farið mikið fram síðustu vikur.
Húsnæðismálin
Ég held ég hafi verið mjög heppinn með húsnæðismálin. Leitin gekk hratt og vel þegar hún komst í gang og þrátt fyrir að það væri kannski meira "líf" ef ég byggi "í Kaupmannahöfn" (eins og þeir sem búa á "meginlandinu" orða það) munar rosalega miklu að vera í þægilegu göngufæri við skólann. Herbergið er líka fínt og sambúð okkar Andreas hefur gengið prýðilega.
Heilsan
Það er fátt ömurlegra en að vera lasinn í útlöndum, en blessunarlega hef ég verið hress það sem af er, þótt einstaka sinnum hafi ég ímyndað mér að nú væri ég að leggjast í pest. Að frátalinni sólarhrings matareitrun og magapest sem varð aldrei meira en óþægileg hef ég sloppið við veikindi (smá kvef telur maður ekki með). Minn forni fjandmaður kvíðaröskunin hefur haldið sig til hlés og það að takast á við nýja tilveru hefur ekki rúllað neinum streitubolta af stað.

Hlutlaust

Skólinn
Það er kannski skrýtið að setja skólann líka sem hlutlausan, en kannski má segja að ég sé að bíða eftir að hann takist almennilega á flug. Ég hálföfunda Helenu vinkonu mína sem ég hitti fyrir rúmu ári og var þá nýbyrjuð í sínu mastersnámi og réð sér vart fyrir kæti. Sjálfur hef ég á þessari önn aðallega verið að fást við hluti sem ég þekkti að einhverju leyti fyrir og hafa fyrir vikið ekki verið byltingarkenndir. Þetta stafar að hluta af því að ég hef náttúrulega fengist við allan fjandann og er auðvitað að reyna að styrkja mig í því sem ég hef gaman af því að vinna við. Annar þáttur er að ég tók þá stefnu að einbeita mér að því að lifa þessa önn af og tók því áfanga með það í huga að þeir væri hæfilega krefjandi. Á næstu önn verð ég í stærri kúrsum og er bjartsýnn á að þeir verði spennandi og áhugaverðir.
Húsnæðismálin
Önnur endurtekning eru húsnæðismálin. Ég stefni að því að komast í "eigið" húsnæði með því að komast í íbúð inni á stúdentagörðum, þar sem ég fengi mitt eigið eldhús og bað. Þótt sambúðin við Andreas hafi eins og áður segir gengið vel, stend ég í þeirri trú að tilþrif mín í eldhúsinu myndu snaraukast yfir eigin pottum og pönnum.
Félaxlífið
Mér hefur gengið prýðilega að kynnast krökkunum sem eru með mér í náminu og það er kjarni fólks sem ég er kominn í góð tengsl við. Hins vegar skortir stórlega á félagslífið utan skóla og kvöldin fara að stærstum hluta í heimadúllerí. Félagslífið er ein af stóru áskorunum komandi árs, enda til lítils að fara til útlanda ef maður kynnist ekki nýju fólki.

Neikvætt

Hreyfingarleysi
Neikvæði listinn verður stuttur, en það sem helst stendur upp úr er hreyfingarleysið. Hlaupaskórnir og gallinn hafa legið óhreyfð síðan ég kom út og þrátt fyrir að ég labbi eða hjóli í skólann daglega er það ekki lengri vegalengd en svo að það hefur ekki mikið að segja varðandi þrekið. Kyrrsetan yfir tölvunni er heldur ekki til að bæta líkamlegt ástand. Á nýju ári er því aukin hreyfing efst á dagskránni. Blessunarlega hefur hreyfingarleysið þó ekki haggað voginni svo neinu nemi, mér sýnist að ég hafi bætt á mig tveimur kílóum á þessari önn, en það er innan skekkjumarka. (Og ég er þar með tveimur kílóum þyngri núna en ég var þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla fyrir ellefu og hálfu ári...)

Markmiðssetning

Það tilheyrir í ársfjórðungsskýrslum að reifa markmið og væntingar og verður það einnig gert hér.

Aukin hreyfing
Mitt fyrsta skref þegar ég kem út aftur verður að leggjast í prófalestur. Ég kem til með að taka fjögur próf milli 7. og 31. janúar - barnaleikur miðað við 5 próf á 8 dögum eins og á fyrstu önn í háskólanum - og ef ég tek ekki á því líkamlega á ég eftir að breytast í grænmeti. Útihlaup eru því fyrirhuguð auk þess sem ég ætla að heimsækja líkamsræktarstöðvarnar í nágrenni við mig og sjá hvort ég finn eitthvað á boðlegu verki.
Breytt mataræði
Á nýju ári ætla ég líka að vera duglegri að nýta mér salatbarinn í skólanum, þó ekki sé nema að grípa litla salatskál með kjötréttunum. Svo ætla ég líka að heimsækja fleiri af veitingastöðunum í kringum mig, treysta fleiri en kebabvinum mínum og ítölsku pisseríunum fyrir matnum mínum.
Fjölbreyttara félax
Ég ætla að reyna að nota félaga Aðalstein í að smokra tánni í gáttina á íslíngasamfélagi Eyrnasundskollegísins. Sömuleiðis ætla ég að vera duglegri við að bjóða bekkjarsystkinum mínum í tebolla, þ.e. þeim sem búa í nágrenni við mig. Svo prófar maður eflaust að hætta sér í fótboltagláp í Jónshúsi einhvern laugardaginn og spilar restina eftir eyranu.
Komast inn á kollegí
Áður nefnt og skýrt.
Nýr vefur!
Nýtt útlit á thorarinn.com hefur verið í smíðum allt of lengi. Pælingarnar sem ég rissaði upp í vor eru að verða úreldar og líklega tek ég mig til og teikna eitthvað allt annað. Enda er það hluti af gamninu, alltaf að prófa eitthvað nýtt.

< Fyrri færsla:
Lokasprettur jóla
Næsta færsla: >
Jólastormurinn sem hvarf
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry