Hlaupa, hljóp, hlaupið

Í dag varð sá merkisatburður að ég dró hlaupaskóna fram í fyrsta sinn síðan ég kom til DK. Ekki nóg með það, heldur batt ég þá á bífurnar á mér og hljóp. Úti. Lengur en í 5 mínútur.

Brottför dróst að vísu um tvo tíma frá fyrstu áætlun (reyndar nánar tiltekið sólarhring og tvo tíma, ef ég væri þessi smámunasama týpa (sem ég er ekki)) en af stað fór ég og hljóp eins og vindurinn...

OK, ég er kannski ekki hraðskreiðasti vindsveipur sögunnar og þetta var kannski ekki lengsta vegalengd sem gustað hefur um, en samt.

Ég var búinn að sjá út lítinn (ca. 4 km) hring sem lá norðvestur með Stadsgraven, yfir í gegnum Christianíu til Christianshavn og svo aftur eftir Torvegade yfir til Amager.

Þetta fór ég á nokkuð sléttum 20 mínútum sem bendir til að áætluð vegalengd hafi verið nokkuð nærri lagi. Ekki ætla ég að reyna að ljúga því að neinum að þetta hafi verið mjög krefjandi hlaup, en dugði þó til að kitla aðeins áreynsluastmann og ef ég þekki sjálfan mig rétt auðga tilveru mína með léttum strengjum næstu daga.

Það er óneitanlega aðeins öðruvísi að skokka eftir Pusherstreet heldur en Ægissíðunni...

Þegar ég sat svo á gólfinu við opinn glugga til að ná púlsinum niður var ekki laust við að ég saknaði svalanna minna. Ég geri reyndar ráð fyrir að á þeim hafi í dag hvort eð er verið of kalt til að nota þær í teygjuæfingar.

Eftir að ég hafði teygt aðeins á og stóð aftur upp var ljóst af rykröndunum á hlaupabuxunum að ég þarf bráðlega að leggja í annan í jólahreingerningu.

Kannski í páskafríinu...?


< Fyrri færsla:
Nýjar myndir af Vilborgu
Næsta færsla: >
Lyder og ulyder
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry