Tapast hefur: tungumálakunnátta

Líkt og lög gera ráð fyrir kíkti maður á föstudagsbarinn þegar verkefnavinnu dagsins var lokið. Þar var prýðileg stemmning, barinn reyndar að mestu tómur en þétt setinn bekkurinn úti í sólinni. Ég sýndi sjálfsstjórn og lét tvo bjóra nægja áður en ég skipti yfir í gosið (eða hvort þeir voru kannski þrír). Mig grunar þó að þeir hafi verið eitthvað göróttir því þeir höfðu grunsamlega mikil áhrif á málfærni mína og hreyfigetu.

Bandarísk kærasta eins af skólafélögum mínum var í heimsókn þannig að ég sat drjúga stund með grúppu þar sem samræðurnar fóru fram á ensku. Þar komst ég að því mér til mikillar furðu að ég er farinn að tapa niður enskukunnáttunni.

Ég stóð sjálfan mig trekk í trekk að því að nota dönsk hik- og tengiorð innanum ensk nafn- og sagnorð. "Derfor", "altså", "det vil sige" og félaga í stað "therefore", "that is" o.s.frv.

Það er töluvert síðan ég komst að því að dvöl mín hér í baunalandi hefur verulega spillt færni minni í að tala sænsku, en þetta með enskuna kom mér í opna skjöldu.

Síðar um kvöldið afrekaði ég að steypa hálfu gosglasi ofan í klofið á mér með einstaklega klaufalegum hætti. Skartaði eftir það mjög kynþokkafullum bleytubletti á ofanverðu hægra læri og öðrum ámóta á rassinum - enda ekki nógu röskur að standa upp úr plaststólnum sem myndaði samstundis gospoll.

Flestir virtust í svipuðum gír og ég, þ.e. ekki að sulla yfir sig gosi, heldur að taka lífinu og bjórnum með ró, og um kvöldmatarleytið var barinn við það að tæmast.

Eitthvað virðist þó lífið afslappaðra á sumum námslínum og þannig birtist galvaskur hópur E-business nema og gesta um áttaleytið, lagði undir sig langborð og virtust vera að búa sig undir gott djamm. Ég þarf að spyrja Hjört hverju þetta kæruleysi bekkjarsystkina hans sæti.

Í stað þess að fara snemma að sofa húkti ég svo yfir lélegu sjónvarpi þar til klukkan varð tvö. Til að bíta höfuðið af skömminni var ég lengi að sofna og svaf laust, þannig að þegar ég vaknaði um 9 leytið í morgun var ferskleiki með takmörkuðu móti.

Þetta er sérlega bagalegt því ég á ekki von á að verða svefnsamt næstu nótt. Niðri í anddyri er búið að vara við innflutningspartýi í íbúðinni fyrir neðan mig og þrítugsafmæli í íbúðinni við hliðina. Miðað við hversu hljóðbært er í húsinu geri ég ráð fyrir að maður fái glasaglauminn beint í æð.

Nú ætla ég hins vegar í hressingargöngu út í vorsólina og stefni á námsdugnað seinnipartinn.


< Fyrri færsla:
Lífs að mestu
Næsta færsla: >
Mogginn gengur of langt...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry