Leynifélag lubbanna?

Í Hagkaup(i/um) í gær voru tveir náungar á þrítugsaldri að fylla á hillur. Báðir voru þeir með hár langleiðina niður á axlir og annar þeirra starði á mig í hvert sinn sem ég átti leið hjá (sem var oft, enda hafði ég enga hugmynd um hvar neitt var). Ég fékk helst á tilfinninguna að hann væri að bíða eftir að ég sýndi eitthvert leynilegt fingramerki til að staðfesta að ég tilheyrði leynireglu lubbanna.

Það merki kann ég ekki og yfirgaf því svæðið án þess að bonda frekar við hilluáfyllara.

Þar sem ég sat svo í strætóskýli við Grensás og beið eftir strætó stöðvaði dumbrauður Póló í ljósabiðröð beint fyrir framan skýlið. Í honum sátu Óskar og Imba ásamt Kolbrúnu dóttur sinni. Hún brosti sínu blíðasta til mín (þótt ég efist um að hún hafi hugmynd um hver ég er). Þegar pabba hennar, hálftvíburabróður mínum, varð litið út um hliðarrúðuna vinkaði ég að sjálfsögðu. Hann starði á móti og virtist greinilega ekki hafa hugmynd um hver ég væri... í nokkrar sekúndur.

Ég hef grun um að lubbanum sé um að kenna.

Með fingramáli urðum við sammála um að hringjast á og að þau myndu gjarnan vilja bjóða mér far en bíllinn væri fullur.

Hann er reyndar ekki fyrstur um að hika á þekkingunni þetta sumarið, í dag lenti ég m.a.s. í því að maður sem hefur unnið með pabba kveikti ekki strax á því að ég væri sonur hans. Það hefur ekki gerst lengi...


< Fyrri færsla:
Hvað með gróðurinn?
Næsta færsla: >
Allt að verða vitlaust í bjórnum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry