Eðalboltanördar

Ég stóðst ekki mátið áðan að kíkja aðeins á fyrsta þáttinn í nýrri þáttaröð FC Zulu. Fyrsta serían fylgdist með umbyltingu hóps af algerum nördum sem ekkert gátu í fótbolta yfir í nörda sem gátu aðeins meira í fótbolta. Hápunktur fyrstu seríunnar var leikur við aðalliðið í Köben, FC Köbenhavn, sem nördarnir töpuðu með sæmd og potuðu inn einu marki. Þeir urðu í framhaldi af þáttunum hálfgerðar þjóðhetjur.

Í nýju seríunni eru þeir aftur mættir til leiks og í litlu skárri ásigkomulagi en þegar þeir byrjuðu síðasta vor. Þjálfarinn hafði skipulagt fyrsta æfingaleikinn og sagt sínum mönnum að þetta yrði létt.

Andstæðingarnir reyndust karlar á eftirlaunaaldri og voru kynntir til leiks með upplistun á kvillum; sumir höfðu farið í hjartaaðgerðir, einn var með ónýtt jafnvægisskyn og svo framvegis. Nördarnir glöddust því mjög og hugsuðu sér gott til glóðarinnar.

Það sem þjálfarinn hafði hins vegar ekki sagt þeim var að þetta var trix til að koma þeim aftur niður á jörðina eftir selebrítí-líf undanfarins hálfs árs. Gömlu mennirnir reyndust allir þrautreyndir boltajaxlar með atvinnumennsku og ótal landsleiki að baki.

Nördarnir skoruðu fyrsta markið, en eftir það tóku öldungarnir öll völd og flengdu strákana. Ég gat ekki séð að endanleg úrslit hafi verið birt, en þau voru á að giska 10-1.

Fyrsta sísonið hófst á því að þeir töpuðu fyrir liði ca. 12 ára stelpna - þannig að þetta er á svipuðum nótum.

Hápunkturinn verður svo "landsleikur" við nörda úr sænskum systurþætti, 30. október. Spurning um að skella sér á völlinn?

Það væri líka fróðlegt að sjá hvort FC Umulius ætti roð í þá?


< Fyrri færsla:
Portrett
Næsta færsla: >
Sumardagurinn síðasti?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry