Sumardagurinn síðasti?

Hér í útlandinu munu veðrabrigði í lofti. Á morgun lýkur sumrinu - að minnsta kosti í bili - með 16 stigum og úrkomu. Í tilefni af yfirvofandi hausti notuðum við nafnar, ég og Leifsson tækifærið að snæða saman hádegismat. Hann hjólaði suðureftir til mín og fékk skoðunarferð um skólann áður en við réðumst á salatbar mötuneytisins.

Annars notaði ég tækifærið og hljóp hálftíma hring á stuttbuxunum fáeinum fata um kvöldmatarleytið. Prýðilegt.

Ég er búinn að veigra mér við því að drösla hjólinu til viðgerðara sem vonandi fæst til að saga upp lásinn - enda vex mér í augum að burðast með læst hjólið (það er engin léttavara). Ætli ég reyni ekki láta til skarar skríða í rigningunni í fyrramálið.

Þá er bara að vona að hann taki mér vel...

Ef tími vinnst til ætla ég að reyna að skjótast í Kvicly á morgun og kaupa mér jukku og liljur í potti - þá fer herbergið að verða frambærilegt og næsta skref að leggjast í listsköpun á veggina og söfnun krúttlegra postulínsstyttna. Það verður t.d. fróðlegt að sjá hvað verður um hvíta strigann sem ég keypti mér fyrir nokkru. Pastelkrítarnar mínar iða í bréfhólkunum af eftirvæntingu.

Fyrst ætti ég samt kannski að vera skynsamur og story-boarda eins og eina Flash teiknimynd...

Sem minnir mig á það að í gær fékk ég hugmynd að leikriti sem gæti hæglega orðið móðir allra klisjukenndra leikhústilrauna með loftárásum á fjórða vegginn og realistíska framvindu. Spennandi að sjá hvort það verður eitthvað úr því. Held samt að lamadýrin fái forgang - nema þetta geti orðið stutt-móðir allra klisjukenndra leikhústilrauna...

Nóg komið af steypu í bili. Farinn að sofa.

(Lesendum til hugþægingar skal tekið fram að þessu með postulínsstytturnar var varpað fram í hálfkæringi.)

(Á nútíma íslensku: Djók!)


< Fyrri færsla:
Eðalboltanördar
Næsta færsla: >
Þegar Vilborg birtist á forsíðu
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry