The great kluck conspiracy

Mér skilst að ég hafi verið tvíklukkaður í bloggklukkinu alræmda á föstudaginn. Mér þykja skilgreiningar á klukki hafa breyst síðan í minni barnæsku þegar þurfti snertingu til að klukk teldist gilt, nú lýsa menn því bara yfir að þeir hafi klukkað einhvern - það er ekki einu sinni sett athugasemd í kommentakerfið. Tsk tsk...

Ég sé fyrir mér eltingaleiki þar sem dugir að standa í sínu horni og tilkynna hvern maður hefur klukkað. Ekki var það svo í minni barnæsku, sei sei nei.

Klukkuðum ber að nefna fimm gnauðaómerkilegar staðreyndir um sjálfan sig. Ég veit ekki betur en þessi vefur sé fullur af tilgangslitlum staðreyndum um sjálfan mig svo fimm í viðbót eru varla nema dropi í hafið.

  1. Þegar ég fer á mannamót í kindarbolnum mínum frá Ósóma hef ég fyrir sið að reyna að sannfæra bauna um að þetta sé mynd af "et islandskt dræbefår" - sem sé sérlega blóðþyrstur ættstofn sem hafi verið ræktaður upp til að verja hinar kindurnar, þær fari létt með að drepa hunda og refi og hópar þeirra eigi það til að ráðast á menn. Baunar vita sjaldnast hverju þeir eiga að trúa. (Orrustufé, anyone?)
  2. Hér úti er ég með tannburstaglasið á vinstri vaskbrúninni. Hins vegar stend ég mig að því, trekk í trekk, að snúa mér til hægri til að leggja frá mér tannburstan. Mér finnst þetta merkilegt því ég hef ekki verið með burstaglasið á hægri hönd í rúmt ár.
  3. Ég er með svarblátt mar undir nöglum beggja stórutáa eftir að hafa farið í langan göngutúr 27. maí síðastliðinn (munur að halda dagbók...) í of þröngum skóm. Ef svo fer fram sem horfir mun marið vaxa nægilega langt fram til að ég geti klippt síðustu vegsummerki þess burtu einhvern tíman um áramótin.
  4. Upp á síðkastið hefur streituröskunin mín valdið því að langar strætisvagnaferðir í troðfullum vögnum geta verið óþægilegar. Það sama virðist ekki endilega gilda um lestarferðir...
  5. Ég er búinn að fá 130 spamkomment á þennan vef, aðallega auglýsingar fyrir póker, með einstaka pilluspammi inn á milli.

Á mínum yngri árum sleit ég alltaf þeim keðjubréfum sem mér bárust, fyrst af framtaksleysi en síðar varð það að prinsippi.

Ég ætla einnig að slíta þessari klukkkeðju, ekki endilega af prinsippi né sárindum yfir framkvæmdum klukkanna - heldur einfaldlega vegna þess að ég er svo neðarlega í píramídanum að allir sem ég þekki og blogga eru löngu búnir að fá þetta.


< Fyrri færsla:
Að drepa elskurnar sínar
Næsta færsla: >
Athugasemdir óskast
 


Athugasemdir (2)

1.

Alli reit 27. september 2005:

Þú gætir huxanlega kallað þetta dræbefår áhættufé, enda reiðubúið að taka sénsa og hætta lífinu fyrir stofnféð.

2.

Þórarinn sjálfur reit 28. september 2005:

Þa´r satt - ég sé það núna...

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry