Sumri hallar (undir flatt)

Smám saman er að verða haustlegra hér í útlandinu, rökkvað á kvöldin og eflaust líka á morgnana (ef ég myndi vakna nógu snemma til að taka eftir því). Veðrið helst hins vegar prýðilegt, þótt sjálfur hafi ég ekki farið út á stuttbuxum síðan í gær.

Haustlauf

Sjaldan þessu vant tók ég myndavélina með mér þegar ég fór í göngutúr síðastliðinn sunnudag. Þar rak ég augun í snigil á laufblaði og þótti myndar verður. Það var ekki fyrr en eftir að hafa puðrað nokkrum myndum á hann að ég tók eftir litskrúðugum runna hálfum faðmi vestar og tók nokkrar myndir af laufskrúðinu.

Haustlauf

Myndirnar af sniglinum voru hins vegar hálf misheppnaðar.

Dugnaðarvottur

Stuttbuxnaskart gærdagsins stafaði af útihlaupatilþrifum. Eftir að hafa leyft sjálfum mér að sofa út til að jafna svefnskuld helgarinnar ákvað ég að sýna á móti dugnað og fara út að hlaupa eftir hádegið.

Fyrst eftir að lagt var í hann á stuttbuxum og peysu var ég efins um að valið hefði verið rétt, enda var soldil gjóla hér á Amagri. Þegar leiðin lá um skjólsælli götur og sólin tók að skína varð hins vegar ljóst að klæðnaðarval var með ágætum og ég skilaði mér heim kófsveittur að vanda. Hringurinn var reyndar ekki nema um 5 km, svo maður skammast sín næstum við að lesa um hringinn sem Jón Heiðar hljóp um svipað leyti:

Fór út að hlaupa og í stað þess að taka létt skokk á mánudegi tók ég bara dauðahringinn. Fór heiman frá mér hérna upp í Ásgarði, hljóp upp Elliðarárdalinn, upp að Árbæjarlaug, yfir gömlu brúna, niður Elliðarárdalinn og niður í Fossvogsdal, yfir Kringlumýrarbrautina, fram hjá Öskjulíðinni og Keiluhöllinni og svo upp Bústaðarveginn heim. Var í einhverju stuði bara. En vindkæling var þó nokkur ..

Botnfrosið te?

Talandi um Jón Heiðar, þá var á mbl.is í dag enn ein dómsdagsfréttin frá Bretlandi, að þessu sinni um yfirvofandi fimbulvetur.

Mér þykir fróðlegt að vita hvernig þarlendir hafa farið að því að spá svo langt fram í "veturinn sem nú er genginn í garð" - sér í lagi þar sem samkvæmt sömu heimild (mbl.) var 22 stiga hiti í London á þessum vetrardegi sem nú er að líða (og ekki nema 17° hér).

Ryð og rómantík

Kannski hef ég svona brenglaðan smekk, en mér þótti eitthvað allt að því rómantískt við tvö ryðguð hjól vandlega keðjuð saman og fest við handrið við Amagerbrogaðe.

Ryðguð hjól

Ef myndin prentast vel má sjá að fremra hjólið er af merkinu Hamlet - þegar ég rak augun í það í fótósjopp las ég fyrst Hamlet en hugsaði Rómeó og þótti ýta enn undir rómantíkina. Svo rann upp fyrir mér hugsanafeillinn - en spyr lesendur; var Hamlet rómantískur?

Hann var að minnsta kosti danskur. (Minnir mig örugglega.)


< Fyrri færsla:
Uppskrift að ávaxtadrykk með rommi fyrir gestgjafa sem ekki eiga tiltæk mæliílát eða annan munað
Næsta færsla: >
Apple gera það einu sinni enn...
 


Athugasemdir (1)

1.

Jón Heiðar reit 12. október 2005:

Bretinn alltaf jafn bjartsýnn :)

Ég spái amk rigningu í Manchester ...

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry