Trúnaður tilhugalífsins rofinn og níasta einkunnin

Í morgun hittumst við Emilie og héldum áfram að spjalla um lokaverkefnið okkar. Afraksturinn varð listi yfir nokkur af þeim verkefnum sem við sjáum fyrir okkur að verði hluti af vinnuferlinu og alfyrstu drög að viðfangslýsingu (hvað heitir annars problemformulering (e. problem statement) á íslensku?).

Stór hluti af tímanum fór líka í smásnakk um allt og ekkert. Ég hef ýtt frekar undir það heldur en hitt, enda má líta svo á að við séum á þessu undirbúningsstigi í hálfgerðu tilhugalífi - að reyna að kynnast hvort öðru, vinnubrögðum og viðhorfum.

Í því slúðri okkar missti hún nokkuð út úr sér sem vakti athygli mína (enda sjálfhverfur með eindæmum eins og þessi dagbók öll ber með sér). Ég er ekki frá því að með því að nefna þetta hér sé ég að rjúfa trúnað þessa tilhugalífs okkar, en treysti því að hún virði það við mig.

Þannig var nefnilega að síðastliðinn föstudag hitti hún tvo skólabræður okkar á föstudagsbarnum. Þau þrjú hafa unnið nokkur verkefni saman, en þótt ég þekki þau öll sósíalt og hafi setið með þeim kúrsa hef ég aldrei unnið verkefni með þeim (að frátöldum stóra usability hópnum sem við Emilie vorum í). En þeir drengirnir munu hafa lýst ákveðinni undrun með að hún skyldi hafa "krækt í mig" í lokaverkefni - og þótt ég vera heldur að taka niðurfyrir mig.

Ég rak upp stór eyru enda veit ég ekki annað en að við Emilie séum á svipuðu reki í einkunnum og metnaði (og veit það raunar að hún er með örlítið hærri meðaleinkunn en ég). En það kemur sem sé á daginn að ég virðist (a.m.k. í ákveðnum hópi) hafa yfir mér áru faglegra afburða (sem mér finnst skondið í ljósi þess að í þessum skóla er ekki þverfótað fyrir snillingum, hverjum á sínu sviði). Mér virðist því að einhverju leyti hafa tekist að viðhalda fronti ráðgjafans (beturvitans) þrátt fyrir að tala málið á köflum eins og tungutregur grunnskólanemi.

Hætt að reykja

Annars er það af okkur Emilie að frétta að við erum frá og með deginum í dag hætt að reykja...

Aðallega reyndar hún, en ég mun kappkosta að veita henni andlegan stuðning eins og arfgeng reykingafanatíska mín áskilur mér.

Eftir allar þessar paravísanir er kannski rétt að lauma því að hér til að fyrirbyggja misskilning að hún og sambýlismaður hennar Martin eru í sameiningu að drepa í.

Nía í usability

Í dag fékk ég svo einkunn í Usability, sex tíma prófinu sem ég tók í upphafi árs.

Það fór eins og mig grunaði að ég fékk 9 (sem svarar til íslenskrar 8). Ég er ágætlega sáttur við það, enda er þessi kúrs alræmdur fyrir að erfitt sé að fá háar einkunnir í honum.

Nú reiknast mér til að ég þurfi bara að fá 13 í prófinu á föstudaginn til að ná 10,00 í meðaleinkunn fyrir námið það sem af er. Hef þó uppi vissar efasemdir um að það takist...

Tekur sig upp gamall ráðgjafi

Mér finnst skondið í ljósi þess hvað ég átti erfitt með að berja saman þeim fyrirlestri sem ég ætlaði að taka með í prófið síðasta föstudag, að í dag hef ég verið svo ósvífinn að ráðleggja tveimur hópum hvernig þeir eigi að fara að því að undirbúa munnleg próf.

Fyrst angraði ég íslensku þrenninguna (Ágúst, Jónínu og SiggaH) sem eru að fara í próf í fjögurra vikna verkefninu sínu á morgun. Þar gat ég slegið um mig með alls konar ábendingum sem ég hef að vísu átt í basli með að troða inn í míns eigins prófundirbúning.

Á leið minni úr glerboxinu þeirra sá ég glytta í kunnuglegan prófíl og óð inn á þær stöllur Christinu og Mette sem eru sömuleiðis að fara í próf úr fjögurra vikna verkefni á morgun. Við þrjú eigum sameiginlega þá trámatísku upplifun að hafa farið í prófið úr Vores Öl verkefninu hér forðum daga (dapurra minninga) og ég reyndi að endurtaka það úr spjalli mínu við íslíngana sem við átti.

Svo er bara að sjá hvort öll þessi ráðgjöf komi sjálfum mér að notum þegar ég renni yfir prófhandritið mitt seinna í vikunni.

Ég hef trú á að þau eigi öll eftir að brillera á morgun án þess að mitt bull skaði svo neinu nemi.

En það er gaman að rifja svona upp gamalkunna ráðgjafatakta, talandi af sannfæringu um eitthvað sem maður á sjálfur erfitt með að uppfylla.


< Fyrri færsla:
Stefnuskrá um almenningssamgöngur
Næsta færsla: >
Much ado about nothing
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry