Þpúkí

Ég var rétt í þessu að festast í lyftunni hérna á kollegíinu. Sem betur fer stóð sú festing ekki lengi, en var töluvert þpúkí. Nú er spurning hvort (og hvernig) maður tilkynnir um stæla í lyftuskrattanum.

Ég skrapp út í búð að kaupa í kvöldmatinn og var samferða japönsku/kínversku pari í lyftunni upp á 1. hæð (þ.e. skv. dönskum skilgreiningum - aðra hæð skv. íslenskum). Lyftan liggur vel við höggi og þess vegna er ég vanur að taka hana frekar en að fara tröppurnar sem liggja aðeins baka til.

Við komumst hins vegar ekki langt áður en lyftan stöðvaðist, og öfugt við það þegar við Siggi lentum milli hæða á föstudagskvöldið opnaðist lyftuhurðin ekki. Ég prófaði því að velja jarðhæðina aftur, hæðina fyrir ofan og loks að nota útidyralykilinn í skrána sem er í lyftunni og maður þarf að nota á síðkvöldum til að virkja lyftuna.

Ekkert af þessu skilaði árangri og asíska parið saup hveljur. Sjálfur var ég ekkert yfir mig hrifinn af tilhugsuninni um að dvelja þarna í einhvern tíma (ekki alveg tebolli minnar kvíðaröskunar) en vissi þó af matarbirgðum í pokanum sem ég var með þannig að hungurdauða yrðum við varla.

Það var því ekki um annað að ræða en að ýta á Alarm takkann og bíða eftir að komast í samband við þjónustumiðstöð. Við það hrökk lyftuskömmin af stað og opnaðist 10 cm fyrir neðan mína hæð, meðan einhverskonar módemhringin heyrðist í hátalaranum.

Asíska parið hélt vart vatni af létti yfir þessum málalokum, en ég kunni ekki við annað en að reyna að gefa alarmsentralnum skýrslu og staldraði því við með dyrnar opnar. Eftir tveggja mínútna bið gafst ég upp og verð að segja að ég er feginn að hafa ekki átt líf mitt og geðheilsu undir því að ná sambandi við miðstöðina sem ekki gaf frá sér annað lífsmark en þessa módemhringingu.

Nú er hins vegar spurningin hvað maður gerir. Mér heyrist á hljóðunum framan af gangi að lyftuskömmin sé á ferðinni - og hef a.m.k. ekki heyrt í alarm bjöllunni (sem líka gaf frá sér voða fína hringingu). Ég skellti Post-it miða á lyftuhurðina á minni hæð um að "Elevatoren er ikke til at stole på", en veit ekki hvort ég á að gera eitthvað meira fyrr en ég banka upp á hjá húsverðinum í fyrramálið.

En þetta var spúkí upplifun þótt stutt hafi staðið (þetta var kannski mínúta eða svo).

Held ég taki tröppuna þar til ég er viss um að kíkt hafi verið á lyftugarminn.


< Fyrri færsla:
Pókerkvöld
Næsta færsla: >
Nýr vefur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry