Kubbandi sér vinsældir

Ég kom við í matvörubúðinni á horninu á leiðinni heim úr skólanum seinnipartinn og fyrir einhverja rælni kíkti ég á það hvað þar væri af útileikföngum.

Viti menn, þar blasti við þetta líka fína Kubb sett á 70 kall. Ég skellti því snarlega á færibandið ásamt ávöxtum og mjólk og rölti stoltur með gripinn heim.

Ég held svei mér þá að þetta sett vegi ekki nema helminginn af því sem ég keypti fyrir Margréti (sem gæti reyndar stemmt við að það kostaði helmingi minna). Mér sýnist að það sé kannski örlítið smærra í skala heldur en sett Mardíar og líklega úr léttari viði.

Fyrir vikið tel ég góðar líkur á að hægt sé að hjóla með það á bögglabera án þess að eiga á hættu að hjól og knapi sligist undan farminum.

Siggi hefur verið manaður til að taka þátt í víxluleik og nú er bara beðið færis.

Ég er að vonast með þessu til að geta keypt mér auknar vinsældir í sumar - ég verði maðurinn sem hringt verði í þegar vantar spýtuspil til að taka með í almenningsgarðadól.


< Fyrri færsla:
Rassblautur á kórtónleikum
Næsta færsla: >
Áhrifamáttur hlaupandi sólar
 


Athugasemdir (1)

1.

Siggi reit 10. maí 2006:

Mér er mikill heiður sýndur. Bíð gríðarlega spenntur.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry