Kubbað í kvartbuxum

Ef svo fer að ég fari heim í haust er alveg ljóst að svona veðurdaga mun ég sakna mjög - þeir eru ekki tíðir í Reykjavíkinni.

Með Aðalsteini í garði konungs

Í gær mælti ég mér móts við Steina að loknum vinnudegi hjá honum. Hann vinnur í næsta húsi við Kongens Have og það lá því vel við að hittast þar.

Þar sátum við í góðu yfirlæti, ræddum heima, geima og önnur mál auk þess sem við sötruðum nokkra bjóra áður en við héldum sitt í hvora áttina.

Slet ikke amalegt.

Prótótýpa verður til

E. fór í smávægilega aðgerð í gær og ég harðbannaði henni að láta sér detta í hug að koma í skólann í dag.

Ég sat því einn stærstan hluta dags, en reyndi samt að liðsinna Christinu vinkonu minni með smá vefverkefni. Þar rakst ég á CSS hnút sem ég náði ekki að leysa í fljótu bragði - endaði með að sýna henni bara hvernig hún gæti leyst þetta með töflum.

(En slíkt og annað eins myndi ég auðvitað aldrei viðurkenna opinberlega.)

Ég held að E. verði kát að sjá það sem ég er kominn með sem frum-frumgerð. Reyndar þurfti mun minna til að koma því saman en ég hafði gert ráð fyrir - en það er þá bara skemmtileg tilbreyting...

Kubbvíxla

Í dag kom svo að því að við Siggi vígðum kubb-settið. Við mæltum okkur mót um fjögurleytið og öttum kappi í garðskikanum á mótum Amager og Christianshavn þar sem ég tók myndasyrpu um daginn.

Við áttum þarna stórleik og ég hafði sigur í úrslitaleik; 2-1. Að vísu misminnti mig um eina reglu, sem hefði stytt heldur keppnina, en þetta var meira prófessional svona (og stefndi á tímabili í krikket-lengd).

Settið hefur hér með hlotið "góðkenningu".

Myndir af Steina, Sigga og mér hefur verið bætt í myndaalbúm vorsins.

Þetta held ég að sé í fyrsta sinn sem birtast myndir af mér berum að ofan í myndaalbúminu mínu. Ég hef þegar fengið kvörtun frá kvenkyns aðdáanda um að henni þyki þetta ekki alvöru stuttbuxur sem ég skarta, ég svaraði því til að svona kvartbuxur væru móðins í Köben um þessar mundir.

Engar kvartanir hafa hins vegar borist frá karlkyns aðdáendum.

Þvottaþörf

Í þessum rituðum orðum er þurrkari að japla á fatapjötlum í minni eigu.

Í gegnum tíðina hafa verið ýmsar ástæður fyrir því að þurfa að leggjast í þvotta; yfirvofandi brókaþurrð, sængurveraskipti o.s.frv.

Nú var hins vegar orðinn knýjandi skortur á sokkum sem hægt væri að vera í við stuttbuxur.

Auk þess sem grasgrænan á fyrrum rassvotu buxunum var tekin að krefjast aðgerða (kenni löngum hádegishléum um þá grænkun).

En nú er yfirvofandi síðasti fimmtudagsbar vetrarins, á morgun er stóri beðedagurinn sem er frídagur bauna (en ég veit ekki hvaða hliðstæðu á í helgidagatali hinnar íslensku lúþeskevangelísku kirkju).

Samt ekkert frí hjá okkur námsmönnum, frekar en fyrri daginn.


< Fyrri færsla:
Áhrifamáttur hlaupandi sólar
Næsta færsla: >
Strengir eru strengdir
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry