Skokkað með Johnny

Ég prófaði í fyrsta skipti að trimma með hljóðbók í eyrunum; The Man Called Cash, sem ég hafði fengið lánaða hjá Ella. Það kom mér eiginlega á óvart hversu vel mér gekk að fylgjast með lestrinum samhliða því að forðast hundaskít, hjólreiðamenn og halda auga með púlsmælinum.

Ekki þori ég að fullyrða hvort púlsinn hélst lágur vegna þess að það vantaði Metallica og Rammstein til að keyra upp tempóið, eða hvort það er vegna þess að þrekið er almennt að batna. Hins vegar var þetta bara nokkuð lipurlega hlaupið og án vandkvæða.

Kannski er í hlaupunum komin átylla til að hella sér aftur í hljóðbækurnar, ferðir mínar til og frá skóla eru í það stysta um þessar mundir, en síðastliðið sumar hlustaði ég á slatta af bókum í strætóferðum mínum í vinnuna.

Og önnur tónlist

Ég hef nú ekki lagst í að hlusta mig í gegnum tónlistarferil Cash samhliða því sem frásögninni vindur fram, en hef þess í stað verið að hlusta á nýjustu plöturnar sem ég hef sótt mér á eMusic; nýju plötuna með Belle & Sebastian, og Funeral með Arcade Fire. Ég á enn eftir 17 lög í þessum mánuði og er að spá í hvað verður fyrir valinu. Væri alveg til í að taka smá séns og skella mér á Gulag Orkestar með Beirut - nokkuð sem ég hef aldrei heyrt um áður en er að fá fínar umsagnir.

Annars var ég að taka til á iPodinum um daginn og fann þar plötur sem ég hafði afritað í nýliðnum klakaskreppi og síðan steingleymt. Þar á meðal Illinoise með Sufjan Stevens - mikil snilld.

Af daglegum störfum

Í þessari viku hafa ýmsar hugmyndir skotið upp kollinum í lokaverkefnisvinnunni. E. hefur verið dugleg að finna texta sem tengjast því sem við erum að fást við og í sameiningu erum við búin að rissa upp ákveðna myndræna framsetningu upplýsinga sem við höldum að henti vel fyrir súm-viðmót eins og við erum hrifnust af að skoða.

Kennarinn okkar ætlar að kíkja á hugmyndirnar okkar á morgun, en mitt verkefni núna er að fá þessa hegðun í gang í Flash-umhverfinu. Það hefur hins vegar gengið óskaplega hægt hjá mér, enda einbeiting eitthvað takmörkuð.

Í dag bætti svo ekki úr skák þegar Elli bróðir sendi mér tengil á þessa Best Buy aðgerð hjá Improv Everywhere. Það leiddi mig svo aftur að annarri aðgerð: No Pants 2k6 og svo mætti lengi rekja sig áfram. Fyndið stöff.

Leitin að Ukuleleinu

Það að uppgötva að Somewhere Over the Rainbow/Wonderful World með Israel Kamakawiwo`ole (lag sem Sigmar bróðir kynnti mig fyrir) skuli leikið á ukulele varð ekki til að minnka áhuga minn á því eðla hljóðfæri.

Í dag kíkti ég svo í gítaraverslunina efst á Amagerbrogade. Þar áttu þeir til eina týpu af ukulele og þótt ég hafi ekki lagt nafnið á gripnum á minnið tókst mér með aðstoð sjónminnisins og veraldarvefsins að þrengja hringinn. Þar er sem sé til sölu Greg Bennett ukulele í concert stærð. Með aðstoð sama veraldarvefjar tókst mér að grafa upp umsagnir um tegundina frá ukulelespekingum ýmsum.

Þeir eru flestallir sammála um að þetta sé traustur gripur og heilmikil gæði miðað við verð. Sumum þykir þó vanta aðeins upp á hljóminn í honum (þ.e. hljómstyrkinn), en ég held að nágrannar mínir myndu ekki kvarta þótt aðeins skorti á styrk. Verðið hér virðist þokkalegt miðað við prísinn sem amazon.com gefur upp. Miðað við það er hann seldur ódýrar hér en listaverð í USA, þótt amazon verðið sé ívið lægra.

Þetta er hins vegar kannski í það öflugasta fyrir byrjendur eins og mig - en ég sé það sem kost að hann ætti að halda stillingum betur en ódýrari týpur, auk þess sem hann er það sterkbyggður að það ætti að vera hægt að selja hann áfram þegar/ef ég gefst upp á glamrinu.

En leitin heldur áfram og næst er að kíkja í gítarabúðir á meginlandinu.

Og að lokum má benda á vef Jake Shimabukuro, þar sem meðal annars má hlusta á straum af tónum kappans.


< Fyrri færsla:
Sitthvað smálegt skjalfest
Næsta færsla: >
Sleggjudæmt um júró
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 18. maí 2006:

Ef þig vantar e-ð til að fylla í e-music kvótann þá mæi ég með "New ancient strings" með Mali-búunum Toumani Diuabate og Ballake Sissoko. Tvir snillingar að spila á kora (e-k Vestur-afrísk harpa, kynntist þessu í Gambíu). Tær snilld, I shit you not!

2.

Þórarinn sjálfur reit 19. maí 2006:

Kíki á þetta við tækifæri.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry