Myndir frá Hróarskeldu

Þá er ég búinn að mjatla inn rúmlega 80 myndum teknum á Hróarskeldu og skrifa stutta myndatexta við þær allar. Ferðasagan bíður þess að kólni aðeins hér í KBH.

Hróarskeldumyndir.

Í gærkvöldi hittumst við nokkur úr skólanum á ströndinni. Það var hin prýðilegasta skemmtun og myndir frá kvöldinu birtast kannski við tækifæri.

Í dag fengum við svo Hjört og Sigga til að leika tilraunakanínur. Var ekki að sjá að þeim yrði meint af.

Enska Japanans frá í gær reyndist hin prýðilegasta og ekkert til að hafa áhyggjur af.

Á morgun kemur svo síðasta fórnarlambið okkar, Daninn Dan. Það verður nú prýðilegt að ljúka þessum prófunum öllum og geta snúið okkur alfarið að úrvinnslu og skrifum.

Hér er annars sama hitamolla og undanfarið. Ég gafst upp á tölfræðileikfimi dagsins og leitaði í íspinna og skugga heima á kollegíinu. Er alvarlega að spá í að hjóla bara á ströndina eftir kvöldsnarl - það var svo helv. næs að hanga þar í gærkvöldi.

Undanfarnar nætur hef ég sofið hálfur undir þunnu sumarsænginni minni (geimfarasængin hefur verið upprúlluð við rúmstokkinn undanfarna mánuði). Í nótt kom svo að því að ég gafst upp á þunnu sænginni líka og sofnaði undir "tómu" sængurveri (einhverra hluta vegna finnst mér ómögulegt að sofna nema hafa eitthvað ofan á mér (a.m.k. að hluta)).

Svo eru skýin hvað úr hverju að fara að birtast til að kæla okkur um helgina.

En þrátt fyrir örlítið sveittar stundir er þetta veðurfar allt óskaplega indælt.


< Fyrri færsla:
Spagettíin tóku bratwurstpylsurnar
Næsta færsla: >
Svotil næstum búin...
 


Athugasemdir (1)

1.

Sævar Sigurgeirsson reit 15. júlí 2006:

Gúrumyndin af þér með rauða hattinn er algjörlega ómótstæðileg.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry