Valið og hafnað

Hér ætla ég að reyna að glósa helstu upplifanir mínar frá Hróarskeldu. Þetta verður í einhverju léttkaótísku langlokuformi, eflaust torskiljanlegt flestum öðrum en sjálfum mér.

(Meðfylgjandi myndir sjást í betri gæðum í myndaalbúminu.)

Fimmtudagur

Við lögðum af stað um kvöldmatarleytið; Huld (margreyndur keldufari), Siggi (einreyndur keldufari) og við grænjaxlarnir ég og Ásgerður systir Huldar.

Okkur gekk ágætlega að rata uppeftir (þrátt fyrir að vera kortalaus) og lögðum á malarstæði ekki svo langt frá aðalinnganginum en þangað þurftum við til að fá armbönd helgarinnar.

Beðið eftir að skipta miðum fyrir armbönd

Helsta einkenni keldunnar, hlandlyktin, tók vel á móti okkur strax þarna á fyrsta alvöru degi hátíðarinnar. Á malbikaða slóðanum frá aðalinnganginum að innganginum á sjálft tónlistarsvæðið stóðu hlandpollarnir og gufuðu upp í sólinni.

Síendurtekið þema var svo að sjá menn standandi mígandi upp við lárétta fleti hvar sem þá var að finna (húsveggi, skilveggi, girðingar og kamra), gjarna með formlegt mígildi í innan við 20 metra fjarlægð.

Þegar leið á hátíðina jókst svo hlutfall kvenna í hópi veggpissara, búnar að gefast upp á biðröðunum á kamrana.

Fyrsta drykkjutengda óhappið varð á leið inn á tónlistarsvæðið. Þangað er nefnilega bannað að fara með neinar lokaðar flöskur eða dósir (opinbera ástæðan er að það sé svo þeim sé ekki beitt sem kastvopnum í tónleikaþvögunum). Ég hafði tekið með mér hálfslíters kók og sá fram á að þurfa að fórna henni.

Til að hún færi nú ekki algerlega til spillis ákvað ég að fá mér sopa. Þótt ég sæi að flaskan væri að fara að gjósa gerðist það svo hratt að ég náði ekki að bregðast við, heldur frussaði mig allan út í volgu og hristu kóki. Notaleg byrjun á helginni...

Fyrstu tónleikarnir sem við fylgdumst með voru Deus frá Belgíu. Prýðisrokk, en ekki sérlega minnisstætt. Við sátum á grasbletti við Arena tjaldið og hlustuðum á þá maulandi flögur og sötrandi fyrsta bjór helgarinnar auk þess að dást að nærstöddum Íslendingum sem voru orðnir áberandi sólbrenndir strax á fyrsta degi.

Glyttir í Deus

Þaðan lá svo leiðin að Orange sviðinu að sjá Guns 'n' Roses. Að rokkstjörnuhætti lét Axl bíða eftir sér (þetta voru einu tónleikarnir sem ég varð var við að hæfust meira en 10 mín. eftir áætlun.)

Eftir 40 mínútna bið án þess að bólaði á neinum gáfumst við upp og tókum þess í stað nokkur lög með Clap Your Hands Say Yeah. Aftur hljómsveit sem ég ekki þekkti fyrir, ágæt skemmtun en ekki eftirminnilegt.

Þegar við röltum svo aftur gegnum mannþröngina á Orange voru Guns 'n' Roses komnir í gang. Eftir að hafa spilað fyrir okkur eitt eða tvö lög skiptu þeir yfir í gríðarlangt gítarsóló sem hvaða táningur sem spilað hefði á rafmagnsgítar í mánuð hefði skammast sín fyrir. Við gáfumst upp og fórum á Sigur Rós í staðinn.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikill aðdáandi Sigur Rósar og að þetta er í fyrsta sinn sem ég sé þá live, en þetta voru gríðargóðir tónleikar. Mögnuð stemmning sem þeir náðu upp og Arena tjaldið troðfullt, þrátt fyrir að vera í samkeppni við eitt aðalnúmer hátíðarinnar. Ívið meira af artí týpum mættar en á dæmigerða tónleika og örlítil jónuangan í lofti.

Þegar búið var að klappa Sigur Rós upp í fimmta sinn röltum við út í nóttina og heim á leið. Það kom okkur mjög á óvart að heyra í G'n'R í fjarska, en þeir voru enn að og við sáum lokalögin með flugeldum og öllu tilheyrandi.

Umsagnir annarra um G'n'R tónleikana hafa annars verið blendnar, atvinnuskríbentar hérlendir hafa kafað djúpt í skammarorðaflórinn, en félagi Hjörtur var hæstánægður.

Á leiðinni aftur í bílinn létum við hóp fyrrverandi landamæravarða frá Austur-Þýskalandi í appelsínugulum vestum fæla okkur frá því að vaða gegnum starfsmannastæðið í átt að bílnum. Afleiðing þess varð langur göngutúr um Roskilde-by-night í stóóóran hring til að komast lox dauðþreytt á stæðið.

Heimferðin varð svo tíðindalaus og við komin heim um hálf-tvö.

Föstudagur

Á föstudagsmorgninum fengum við Emilie einn tilraunaþáttakanda í heimsókn áður en ég fór í Kvickly að kaupa mér hádegismat og blautþurrkur til handþvotta (hafði sýnst að það myndi skynsamlegt). Við lögðum svo af stað fljótlega eftir hádegið.

Nýhlaðin myndavélin gleymdist heima, þannig að það voru engar myndir teknar á föstudeginum.

Fyrsta hljómsveit á dagskrá var Gogol Bordello með sígauna-paunk. Mikið stuð og líkt og hjá Eggert og co. voru bestu lögin þau þar sem harmonikkan var þanin.

Mistök dagsins reyndust að fara ekki á Mörthu Wainwright. Þess í stað skiptum við liði og við Siggi heilsuðum upp á Ágúst og félaga í (i)scream tjaldinu. Siggi hjálpaði mér svo að kaupa hinn sérdeilis smekklega ósmekklega sólhatt hátíðarinnar.

L.O.C. vakti greinilega mikla eftirvæntingu danskra, því svæðið nötraði í píkuskrækjum þegar þeir (hann?) stigu á svið. Við létum það hins vegar eiga sig og stilltum okkur upp við Orange til að fylgjast með Kaizers Orchestra frá Noregi. Það voru prýðilegir tónleikar og ég komst að því að eitthvað af tónlistinni sem ég hef haldið að væri með Kaiser Chiefs er líklega með Orchestranu - a.m.k. var slatti af lögum sem ég þekkti. Greinilegt að menn höfðu gaman af því sem þeir voru að gera.

Við fengum okkur svo eðalgóða karibbíska borgara í kvöldmat (e.t.v. besti borgari sem ég hef fengið í .dk) og horfðum á Morrissey á Orange. Hann var líka í góðu stuði og virtist hafa gaman af því að koma fram. Mjög fínir tónleikar.

Þaðan fórum við á Rufus Wainwright í Arena. Ég hafði ekkert hlustað á hann áður, en heyrt nafnið nokkrum sinnum. Þegar hann hafði verið kynntur á svið með þeim orðum að pabbi hans hefði spilað á Hróarskeldu fyrir 30 árum, mamma hans fyrir 24 árum og systir hans fyrir... 6 tímum, og settist einn við flygilinn kveikti ég samt á því að hafa séð tónlistarmynd með honum í danska imbanum. Mér fannst hann mjög skemmtilegur, ekki síst þegar hann fékk systur sína með sér.

Gæsahúðamóment helgarinnar var svo þegar þau systkin tóku saman Halelujah eftir Cohen. Ótrúlega flott.

Já, ég viðurkenni að vera sökker fyrir angurværri og pínu innhverfri tónlist, a.m.k. svo lengi sem mér finnst hún einlæg.

Siggi og Huld létu sig hverfa á Happy Mondays og við ætluðum að hringja okkur saman á Bob Dylan. Ég sendi nokkur "öfundið mig núna!" SMS heim til Íslands og það dugði til Telia sendi mér tilkynningu um að nú væri ég búinn með símainneignina mína.

Voru þá góð ráð spendýr.

Þar sem ég þóttist vita að það yrði auðveldara að finna þau í litla Metropol tjaldinu heldur en símalaus í tugþúsundunum við Orange ákvað ég því að slaufa lokalögum Rufusar og bruna á eftir þeim. Það tókst að finna þremmenningana og eftir nokkur lög röltum við saman yfir á Dylan.

Meistarinn olli hins vegar vonbrigðum, einbeitti sér að því að spila leiðinleg kántrí lög á orgel og stálgítar. Við gáfumst því fljótlega upp og ætluðum aftur á HM. Þegar þangað kom voru þau akkúrat að klára settið, en við ákváðum að fá okkur kvöldhressingu og kíkja bara á lokalögin hjá Dylan.

Þegar við komum svo þangað aftur virtust hvorki hann né áhorfendur í sérlegu stuði. Þegar hann lauk sér af blasti svo við stórt klúður skipuleggjenda.

Það var gersamlega ekkert spennandi í gangi, nema The Streets sem átti að byrja hálftíma síðar. Þannig að þessi 50-60 þúsund sem voru á Dylan lögðu því af stað að Arena tjaldinu. Ég hef ekki hugmynd um hvað það rúmar marga, en varla nema 10.000 - þannig að þetta var dæmt til að enda í einhverju brasi.

Í ofanálag er Arena tjaldið á horni tveggja stórra gönguleiða þannig að þar mættust tveir kröftugir straumar og reyndu að troða sér inn í yfirfullt tjaldið. Við höfðum komið okkur fyrir við tjaldbrúnina þar sem við sáum annan stórskjáinn og lentum í hringiðu straumsins. Á tímabili var þetta við það að verða óþægilegt að finna hvernig þrýstingurinn jókst smám saman. Ekki að það væri beinlínis verið að þrengja að manni líkamlega, en maður fann hvað það hefði litla truflun þurft til að allt breyttist í allsherjar troðning. Til þess kom þó ekki.

The Streets reyndust ein þeirra "hljómsveita" sem höfðu gaman af því sem þeir voru að gera og Mike Skinner sýndi bestu tilþrif hátíðarinnar í að nota myndavélarnar á sviðinu og flutti hálfa tónleikana inn í vélarnar. "There is a party in participation" var mottó kvöldsins og hann fékk áhorfendur virkilega með sér. Sá sem söng með honum reyndist hafa gríðargóða söngrödd (fyrir utan rappið) og þeir léku sér með stef frá hinum og þessum böndum sem tróðu upp á Hróarskeldu. Hann vitnaði síðan ítrekað í evrópumeistaratitil Dana við miklar undirtektir áhorfenda.

Eftir The Streets settum við upp húfur og vettlinga og stilltum okkur upp fyrir Scissor Sisters sjóið. Þau voru í miklu stuði, þótt heldur væri fámennara en á t.d. Dylan fyrr um kvöldið. Taktarnir í söngvaranum minntu mig glettilega oft á Pál Óskar og söngkonan brilleraði í kjaftforni sem féll vel í geð gesta. Maður dillaði sér til hita eins og uppsöfnuð skrokkþreyta eftir langan dag leyfði.

Verst að þau voru ekki með flugelda eins og Axl, það hefði verið mjög viðeigandi í diskó-öfgunum.

Við vorum svo sammála um að sleppa Kashmir sem slúttuðu prógrammi kvöldins, enda orðin lúin. Síðar frétti ég svo að það hafi jafnvel verið enn troðnara en á The Streets (og skýrir kannski að einhverju leyti fámennið á S.S.)

Heimferðin gekk svo án teljandi uppákoma (nema þegar við neyddumst til að fara yfir á rauðu á biluðum ljósagatnamótum þar sem öll ljós lýstu rautt).

Laugardagur

Á laugardeginum fórum við af stað aðeins eftir hádegið í steikjandi sól og hita. Einhverra hluta vegna tókst okkur að villast aðeins af leið og vorum skyndilega komin á kolranga hraðbraut og stefndum hraðbyr í enga átt. Með ábendingum aftursætisbílstjóra með áttavit (kortalausi aðstoðarökumaðurinn ég reyndist enn sem fyrr gersneyddur slíkum hæfileikum) tókst okkur þó að koma okkur á réttan kjöl og á áfangastað, heitt og sveitt.

Dagskráin var frekar lítt spennandi á laugardeginum, þannig að við teygðum bara úr okkur við Orange áður en við færðum okkur yfir að Odeon til að hlusta á reiða manninn í Immortal Technique.

Einmanna sænsk fánabera fyrir framan Orange

Svo kíktum við aðeins á DJ Grazzhoppa's DJ Big Band, sem eins og nafnið bendir til samanstóð af 12 plötuþeyturum að búa til tónverk. Bara helvíti flott.

Þaðan lá svo leiðin yfir á tjaldsvæðið til að horfa á síðari hálfleikinn í England-Portúgal á risaskjá. Þar voru fyrir um 20.000 manns sem höfðu fengið sömu hugmynd, en við fundum okkur setpláss á malbikuðum bletti þar sem við sáum þokkalega á skjáinn, en sólin var þó óþægilega nálægt honum. Þar borgaði sólarhatturinn sig margfalt upp, því börðin gerðu að ég gat skyggt á sólina og ég var sá eini okkar sem ekki lét sólskinið trufla sig að ráði.

Þegar fyrri hálfleik framlengingarinnar lauk ákváðum við að drífa okkur til baka til að ná Primal Scream (og til að forðast skriðuna sem átti eftir að troða sér til baka inn á hátíðarsvæðið um leið og leiknum lyki).

Um Primal Scream er fátt að segja, ég þekki þá lítið en gat þó raulað með í stærstu smellunum þeirra.

Eftir matarhlé fórum við Siggi að sjá seinni hálfleik Frakkland-Brasilía og við fórum svo öll á George Clinton Parilament/Funkadelic. Þar var mikið stuð og fjölmenni á sviðinu. George kallinn er um sjötugt, en ekki að sjá að það háði honum neitt í fönkinu. Þau náðu upp miklu fjöri með sjóvi þar sem fyrir komu dansari í loðbuxum og frakka, bassaleikari í risastórri bleyju, bakraddasöngkona á hjólaskautum, hópur áhorfenda dreginn á svið og barnabarn George sem söng meðal annars hendinguna "Something smell like a skunk and I want some...". Það voru orð að sönnu, því á köflum í tjaldinu var bara töluvert sterk hasslykt.

(Ástæða þess að ég get vitnað í textann er ekki sú að ég hafi svo gott minni, heldur skellti ég mér á að sækja tónleika þeirra frá 2004 á eMusic - mikið til sama prógrammið þótt stuðið skili sér ekki alveg jafn vel á upptökunni og life) (að því gefnu auðvitað að Kanadamenn hafi verið í jafn góðu stuði og við).

Það var svo Kanye West sem slúttaði á Orange og sýndi að maður er kannski ekki með alveg sama smekk og unga fólkið. Það voru lygilega margir mættir á hann klukkan 1, mun fleiri en nokkurn tíman á Dylan kvöldið áður (og þó hafði Dylan byrjað 20:30).

Nóttin var líka mörgum gráðum hlýrri en sólarhringnum áður - sem gaf vísbendingu um hitastig sunnudagsins.

Sunnudagur

Sunnudagurinn var svo bæði lokadagurinn og langheitasti dagurinn með sólbökun mikilli.

Þá var greinilega farið að draga aðeins af sumum hátíðargesta - sjálf vorum við líka hálfdösuð í hitanum þrátt fyrir að hafa sofið í eigins rúmum undanfarandi nætur.

Við byrjuðum daginn á að fara í smá skoðunarferð um tjaldsvæðin. Þvílíkt drasl sem þar var samankomið. Kýs að hafa ekkert um það fleiri orð.

Klukkan 3 átti Damian Jr. Gong Marley (sonur Bob) að troða upp á Orange, en hann forfallaðist svo við fylgdum straumnum yfir á enn eina yfirtroðna tónleika í Arena, að þessu sinni með Arctic Monkeys.

Við reyndum ekki einu sinni að troða okkur inn í tjaldið, heldur settumst á grasblett í námunda við það. Það heppnaðist ekki sérlega vel þar sem staðið var allt í kringum okkur og rykskýið við að kæfa okkur. Að auki skilaði sér ekkert nema ómur af bassatrommunni, þannig að þetta var ekki beysin tónleikaupplifun.

Útsýnið á Arctic Monkeys

Við gáfumst því upp, millilentum í vökvun og teygðum svo úr okkur í sólinni við Odeon við ljúfa tóna rokksveitarinnar Wolfmother. Þar blaðaði ég í bæklingi með diskatilboðum flytjenda á hátíðinni og kveikti þá í fyrsta sinn á því að The Raconteurs hans Jack White væru á prógramminu. Þeir lentu hins vegar í úlfakreppu milli Franz Ferdinand og Kaiser Chiefs og var því fórnað.

The Strokes voru fyrstu alvöru tónleikar dagsins á Orange sviðinu. Ágætir tónleikar, en virkuðu svolítið eins og "just another day at the office". Þeir fluttu lögin sín prýðilega, en bættu engu við sem gaf tilfinninguna um að maður væri að upplifa þá lífs. Ekki veit ég hvort söngvarinn var drukkinn eða dópaður, hann söng lögin vel en kom ekki út úr sér einni einustu óbrjáluðu setningu þegar hann reyndi að spjalla milli laga.

Eftir Strokes kíkti ég aðeins á Coldcut (myndbanda DJ'ar) - nokkuð flott.

Svo fengum við okkur að borða (þar sem ég rakst á lokaverkefniskennarann okkar flatmagandi í hengikoju, borðandi samloku í góðum gír) og fórum svo á Franz Ferdinand.

Á leiðinni þangað gengum við framhjá biðröðinni inn á svæðið framan við sviðið. Þar voru þegar komin mörghundruð manns sem áttu eftir að bíða í steikjandi hitanum í tvo tíma til að komast fremst á Roger Waters.

Franz Ferdinand var svo með brilljant tónleika. Greinilegt að þeir höfðu gaman af því sem þeir voru að gera og prjónuðu við sína helstu slagara og gerðu enn skemmtilegri. Sem dæmi má nefna að í einu laginu voru þrír að tromma á sama trommusettið af miklum móð og þeir tóku örugglega kortérs útgáfur af sínum bestu lögum.

Bleiku kúrekarnir og Franz

Áströlsku bleiku kúrekahommarnir sem skemmtu sér konunglega rétt fyrir framan okkur drógu stöku sinnum athyglina frá sviðinu með fíblaskap og góðlátlegum áflogum með meðfylgjandi léttvínsfrussum. (But I guess you had to be there for that one...)

Eftir Franz ákvað ég að taka Kaiser Chiefs. Það voru mjög fínir tónleikar, þótt ég þekkti þá ekki mikið gerði söngvarinn sitt besta að halda uppi góðu stuði og tókst vel upp. Tónleikarnir voru ekki sérlega fjölmennir, enda stutt í Roger Waters, og fyrir vikið gat ég prófað að skella mér í gryfjuna framan við hljómsveitina án þess að fara í röð áður. Ég get þá a.m.k. sagst hafa gert það.

Ég veit ekki hversu margir voru á Roger Waters, en það voru vafalítið langfjölmennustu tónleikar helgarinnar. Mér skilst að það hafi verið seldir 75.000 miðar á hátíðina, við það bættust síðan 20.000 starfsmenn - þannig að jafnaði hafa líklega verið um 90.000 manns á svæðinu. Á sunnudeginum voru margir tjaldgesta búnir að gefast upp, en á móti voru mjög margir sem höfðu keypt dagpassa á sunnudeginum. Þannig að það kæmi mér ekkert á óvart þótt á Waters hafi verið um 70-80 þúsund manns. Fjöldinn var alla vega gríðarlegur.

Siggi, Huld og Ásgerður höfðu gefist upp á að reyna að komast að staðnum þar sem við ætluðum að hittast, þannig að ég tróð mér þvert í gegnum þvöguna til að komast þangað sem þau voru.

Hér verð ég að játa á mig skort á undirbúningi. Þegar ég var að troða mér þversum fyrir framan sviðið flaug mér í hug að það væri greinilega orðið langt síðan ég hefði hlustað á Dark side of the moon, ég mundi a.m.k. ekkert eftir þessum lögum. Hins vegar gat ég tekið með gríðarkórnum af innlifun í "Wish you where here" (án þess að kveikja á að það er heldur ekki á Dark side).

Yfirskriftin "Roger Waters performing The Dark Side of the Moon" var enda misvísandi, þar sem hann tók stóran hluta af Pink Floyd safninu áður en hann byrjaði á dökku hliðinni.

Við höfðum ákveðið að fórna lokunum á tónleikunum til að sleppa við hina óhjákvæmilegu umferðarörtröð þegar allir hátíðargestir færu heim í einu, en hefðum eftir á að hyggja getað leyft okkur að vera aðeins lengur vegna þess hvað tónleikarnir urðu langir.

En það var heilmikil stemmning að heyra óminn af 80 þúsund manns að taka undir í nóttinni meðan við röltum yfir í bílinn.

Heilt á litið

Þetta var mjög skemmtileg hátíð og ómissandi upplifun. Ég hélt að 18.000 manns í Egilshöll hefði verið margt, en það var rangt.

Það að vera svona á bílaleigubíl og vera ekki nema hálftíma á leiðinni var mjög þægilegt og fær mín meðmæli (svona fyrir gamalmenni). Annar möguleiki væri samt eflaust að vera á einhverju rólegu tjaldsvæðanna, jafnvel þar sem maður kaupir þegar uppsett tjald.

Púsluspilið að sjá alla sem mann langar til er næstum óleysanlegt, en bara um að gera að taka því sem að höndum ber og huga ekki um það sem ekki næst.

Þrátt fyrir allan þennan fjölda og gríðarlega drykkju var varla að maður yrði var við teljandi vandræði. Vissulega lágu menn áfengissvefni hér og þar, en ég held ég hafi ekki tekið eftir nema einum á dag sem var að kasta upp einhversstaðar úti í horni.

Ég sá hvergi slagsmál, nema bara góðlátleg áflog innan kunningjahópa um frisbídiska eða annað slíkt.

Ég þakka meltingarfærunum og almættinu fyrir að hafa ekki þurft að nýta mér kamrana, enda var það ekki skyndiákvörðun að bregða sér á klósett - allsstaðar voru langar biðraðir. Hlandlyktinni verður erfitt að gleyma.

En eins og áður segir; brilljant helgi. Samferðafólk mitt fær bestu þakkir fyrir leiðsögn og umburðarlyndi.


< Fyrri færsla:
Ákvörðun liggur fyrir
Næsta færsla: >
Fjögurra ára hlé
 


Athugasemdir (1)

1.

Siggi & Huld reit 10. júlí 2006:

Þökkum þér sömuleiðis samveruna.
Gaman að endurupplifa hátíðina í gegnum þennan texta, þótt erfitt sé að koma til skila ammoníaki, "Roskilde by night" túrnum, ryki og kúrekum með orðum.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry