Sól í Reykjavík

Mér skilst að gærdagurinn hafi verið annar alvöru sólskinsdagurinn í höfuðborginni í sumar. Ég skrapp í kubb með Mardí seinnipartinn og verð að viðurkenna að mér var eiginlega bara frekar heitt (þótt ég eigi að heita ýmsu vanur úr Köben).

Eftir frábært grill hjá Vilborgu og co. í Hafnarfirðinum sátum við svo úti í kvöldsólinni og spjölluðum langt fram eftir kvöldi meðan við biðum eftir að sykurvíman rynni af heimasætunni (eftir eftirrétt sem samanstóð af ávaxtasalati, ís, súkkulaðikurli og grilluðum sykurpúðum). Mjög notalegt.

Minna hass, meira mas

Á sunnudagskvöldinu fór ég auðvitað ásamt nokkrum þúsundum annarra á tónleika Sigur Rósar. Ég hef aldrei verið sérlegur aðdáandi en var stórhrifinn af tónleikunum þeirra á Hróarskeldu. Þar var það ekki endilega tónlistin heldur meira stemmningin sem þeir náðu upp sem heillaði mig.

Sama stemmning næst trauðla upp á opnum tónleikum eins og á Klambratúninu þar sem stór hluti er bara að kíkja til að sýna sig og sjá aðra. Á Hróarskeldu voru hins vegar mættir áhorfendur sem höfðu valið að vera ekki á Guns'n'Roses tónleikunum (og ívið meiri hassangan í lopti). Fyrir utan hávaðann af þyrlunni framan af tónleikum fór masið allt í kringum mann aðeins í taugarnar á mér, en ég náði nægilega miklu flassbakki á Hróarskeldustemmninguna til að vera sáttur.


< Fyrri færsla:
Enn með lífsmarki
Næsta færsla: >
Þrír af þremur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry