Letihelgi okkar frænda

Vörnin á föstudag tókst ágætlega. Við tókum reyndar óratíma í að koma öllum græjum fyrir, ná rafmagni á allt sem þurfti og stilla eftir þörfum, en það hafðist rétt fyrir hádegið. Prófdómarinn fékk svo að prófa "kerfið" okkar við upphaf varnar (klukkan 13) og það gekk ágætlega (þrátt fyrir örlítil stillingavandræði).

Eftir stutta prufukeyrslu héldum við um hálftíma framsögu og síðan tóku við umræður í rúman hálftíma í viðbót.

Þegar þeir spekingar höfðu stungið saman nefjum í nokkrar mínútur vorum við kölluð inn og tilkynnt að við hefðum fengið "stort 10 tal". Þeir sögðust hafa verið að rökræða hvort við ættum að fá 10 eða 11, en töldu upp þrjár ástæður sem mæltu gegn því að gefa okkur 11. Val á tölfræðiformúlum mætti gagnrýna (ég játa á mig tæknivillu), við hefðum getað gert meira til að tryggja að við værum raunverulega að einangra þær breytur sem við teljum okkur vera að einangra og lox lýstu þeir eftir ýtarlegri "krufningu" á því hvernig skýra mætti niðurstöður tilraunanna.

Ég var alveg sáttur, enda er kennarinn okkar ekki frægur fyrir að gefa sérlega háar einkunnir og ég vissi vel að við þyrftum að hitta á mjög góðan dag til að ná 11. Atriðin sem þeir gerðu athugasemdir við voru líka (eða voru ekki) í lokaköflunum sem kennarinn hafði ekki haft færi á að kommenta á áður og því ekki hægt að gagnrýna hann fyrir að hafa ekki bent okkur á þetta fyrr (tölfræðiathugasemdin held ég hins vegar að komi frá prófdómaranum).

E. var hins vegar ósátt við framsetninguna. Annað hvort hefði bara átt að segja okkur töluna og láta eiga sig að telja upp þessi neikvæðu atriði - nú eða bara gefa okkur 11, enda þótti henni athugasemdirnar smávægilegar.

En úti biðu foreldrar E. með nestiskörfu, kampavín og snittur, auk þess sem nokkrir skólafélagar litu við til að skála með okkur.

Þaðan lá leiðin niður á barinn þar sem við skáluðum í meira freyðivíni.

Frændi í kaupstaðnum

Albert frændi hringdi síðan af flugvellinum um fimmleytið, nýlentur frá London og ég rölti yfir á kollegíið til að sækja hann. Við ákváðum að fá okkur snemmbúinn kvöldverð á búllu í nágrenninu áður en við héldum (aftur) á barinn.

Um tíuleytið var farið að fækka þeim sem ég þekkti (Albert þekkti náttúrulega ekki kjaft) og við ákváðum að færa okkur úr reyknum og hávaðanum til að kjafta yfir nokkrum bjórum heima á kollegíinu.

Á laugardagsmorgninum vorum við báðir latir og komum okkur ekki út úr húsi fyrr en eftir hádegið. Tókum metró upp á meginlandið og fengum okkur smørrebrød og bjór í Nyhavn. Röltum svo aðeins um og kíktum aðeins á design-vörur í Magasín áður en við héldum aftur yfir á Amagrinn.

Kvöldverðurinn var svo pissur og prýðis rauðvín.

Hið villta næturlíf piparsveinanna í Köben hélt áfram með því að við sátum á kojukenderíi og horfðum á Inside Man með Denzel Washington og Clive Owen. Við vorum sammála um að hún væri bara helvíti góð. Mæli með henni.

Sunnudagsþramm

Á sunnudeginum fórum við af stað um hádegið, metróðuðumst upp á Nørreport og röltum upp á Nørrebro, rákum aðeins inn nefið í Nørrebro Bryghus og fengum okkur kaffi/te á Laundromat Frikka. Síðan röltum við meðfram sjóunum, niður á Ráðhústorg, framhjá Svarta demantinum og yfir í Nyhavn og fengum okkur bjór á Café Optimisten (sem er skuggamegin í Nyhavn).

Planið var að skreppa í hafnarrúnt, en við áttuðum okkur á því að klukkutímarúntur (sem var það eina sem í boði var) hefði þýtt að við hefðum lent í tímapressu varðandi kvöldmat (enda þurfti Albert að vera kominn út á völl fyrir kl. 20).

Þess í stað röltum við í rólegheitum til baka eftir Strikinu og líkt og mín er von og vísa þegar ég fæ gesti dró ég Albert með mér á Hereford Beefstow.

Þar smjöttuðum við á prýðilegum steikum og hinu trausta rauðvíni hússins.

Eftir millilendingu í sjoppu til að fá okkur ís og sjá svo Arsenal skora sigurmarkið móti mínum mönnum á sportbar (sem við feðgar þekkjum vel) tókum við troðfullan 5A strætó hingað á Amagrinn.

Albert var svo skutlað í leigubíl, til þess eins að komast að því að fluginu hafði seinkað og hann þurfti að bíða á vellinum fram undir miðnættið með að komast af stað.

Hversdagurinn

Og nú er bara komin venjuleg vika, ósköp svipuð ýmsum öðrum nema hvað að ég þarf ekki að mæta í skólann.

Nú er bara að bretta upp ermar og saxa aðeins á verkefnalistann yfir hluti sem ég ætla að framkvæma áður en ég fer heim. Þarf að fara að fastsetja hvenær ég kem, jafnvel með hliðsjón af tilboði Iceland Express sem ætti að passa við þá viku sem ég er að horfa til.


< Fyrri færsla:
Stort 10 tal
Næsta færsla: >
París: Fyrsti hluti
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry