Latur en eirðarlaus

Dagarnir það sem af er þessari viku hafa verið hver öðrum líkir; vaknað ekkert allt of snemma, farið á fætur í rólegheitum og hádegisverðurinn snæddur yfir í ITU. Seinnipartinn hef ég svo verið að dunda mér við eitthvað; kíkti aðeins í búðir á mánudeginum, hjálpaði í gær Jónínu að komast af stað með Flash verkefni (milli þess sem ég barði höfðinu við stein að reyna að betrumbæta aðeins tilraunaumhverfið okkar), í dag hjálpaði ég aðeins Lydiu með að skerpa línurnar í lokaverkefninu hennar auk þess sem ég steig hið stóra skref að fara og kaupa mér flutningakassa!

Það hefur hins vegar lítið farið fyrir safnaheimsóknum og annarri menningarlegri upplifan, en ég stefni a.m.k. á að kíkja á þjóðminjasafnið og Dansk Design Center áður en vikan er úti.

Ekki verður minnst orði hér á fyrirætlanir um útihlaup og þess háttar hégóma.

Ég er byrjaður að stíga fyrstu skrefin í skriffinnsku tengdri flutningunum, sagði herberginu upp um síðustu mánaðarmót, sendi yfirlýsingu á manntalsskrifstofuna í gær og fyrirspurn á DR um hvernig ég meldi mig frá afnotagjöldunum í dag. Og svo auðvitað sækja mér flutningakassa.

Verslanafíkn

Og eins og ég hef einhverntíman nefnt áður er svolítið ríkt í mér að reyna að spara með því að kaupa mér sitthvað smálegt til heimilisins áður en ég held til baka. Ég er nú ekki að fara að kaupa 20 manna postulínssett, en sitthvað smart hefur vissulega fangað athyglina - og ég geng bara út frá því að það sé ódýrara hér en heima.

Tesett og smart eldhúsáhöld eru t.d. í sigtinu.

Reyndar leiddi smáathugun í ljós að spil sem ég hef verið að velta fyrir mér að fjárfesta í er mun ódýrara í Nexus á Hverfisgötunni heldur en hér í Danmörkinni. Raunar er Nexus verðið allt að því grunsamlega lágt, því það er það sama og á Amazon í Bretlandi. Þeir eiga líka bara eitt eintak til, þannig að ég efast um að rétta leikfléttan sé að ætla að stefna á að kaupa spilið heima. Kemur í ljós.

En flestannað virðist Danmörkinni í hag, ég komst t.d. að því um daginn að skúffueining sem ég hef verið að spá í að kaupa mér í IKEA er 50% dýrari heima en hér - en ég efast um að sá sparnaður réttlæti ferð upp í Lyngby og kostnað við heimflutning.

Eitt af því sem ég hef horft til eru plaköt og þess háttar, í Posterland á Strikinu er gríðarlegt úrval af flottum eftirprentunum málverka, en ekki laust við að maður fái hálfgerða valkomplexa í öllu úrvalinu...

Svo er ég óneitanlega svolítið svag fyrir Tinnaplakötum. Siggi og Huld eru með eitt slíkt í stofunni hjá sér (þótt mig gruni að það sé meira undan rifjum Sigga runnið en húsfreyju) og ég væri alveg til í að grípa mér eitt í skrifstofuna heima. Spurningin er bara hvað.

Teiknimyndaverslunin Faraos Cigarer er með prýðilegt úrval af Tinna plakötum með upprunalegu frönsku forsíðunum (hægt að fá stærri mynd með því að færa músina yfir viðkomandi forsíðu).

Einhverjar ábendingar frá smekkvísum lesendum? Er einhver forsíða í uppáhaldi?


< Fyrri færsla:
París: Fyrsti hluti
Næsta færsla: >
Næsta helgi síðust
 


Athugasemdir (3)

1.

Margrét reit 20. september 2006:

Minna Tinni og meira svona Gustav Klimt eða e-ð annað næs... Svo geturu líka bara tekið mynd af meðleigjenda mínum og sett upp á vegg. Muaahhahah

2.

Þórarinn sjálfur reit 21. september 2006:

Er ekki Klimt of mikil klisja? Tinni er það kannski líka...

Held það nægi mér alveg að koma til með að vinna með meðleigjanda þínum, þarf varla mynd af honum heima hjá mér líka.

3.

Tinna reit 22. september 2006:

Án efa Sjö kraftmiklar kristalskúlur - schnillld

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry