Næsta helgi síðust

Þá styttist í síðustu helgina mína í Köben. Það er ekki laust við að það sé skrýtin tilhugsun, en lífið gengur víst sinn vanagang og öllum tímabilum lýkur að lokum (sér í lagi gullaldartímabilum). Það verður kvöldverðarveisla hjá "frokostgruppen" af ITU annað kvöld, en helgin er að öðru leyti lítt skipulögð.

Á fimmtudag eftir viku treð ég mér með skóhorni í flugvél EasyJet og flýg til fundar við pabba og Sigmar í London (og missi þar með af Ella og Halldóru sem verða í Kaupmannahöfn sömu helgi). Þar ætlum við feðgar að spóka okkur í nokkra daga og kíkja á leik með Albert frænda.

(Albert frændi er sko ekki að fara að leika, heldur kemur hann með okkur á fótboltaleik.)

Þegar ég kem svo hingað aftur er ekkert að gera nema að bretta upp ermar, ég geri ráð fyrir að taka þriðjudag og miðvikudag í að pakka, fimmtudag í að koma dótinu til Samskipa og þrífa pleisið, á föstudagsmorgun er svo planið að skila af mér og bruna heim á klakann.

Ég hefði getað stílað inn á að vera þá helgi líka hér í Köben, en þótt það sé notalegt að sitja hér og horfa út í loftið er engin ástæða til að gera það að ævistarfi sínu - þá er alveg eins gott að koma sér heim og fara að stússast í að koma sér fyrir aftur á grandanum.

Flóamarkaðurinn

Það er sitthvað sem ekki fer með mér heim og ef einhver lesandi nennir að koma og ná í eitthvað af eftirtöldu dagana áður en ég fer er það guðvelkomið. Ég mun líklega skella upp auglýsingu hérna á kollegíinu líka, en annars hendi ég bara því sem út af stendur.

Til frjálsrar hirðingar:

  • 18 gíra karlmannshjól úr Bilka, svolítið yfirborðsryð, en annars í góðu standi. Gírana þarf þó að stilla betur.
  • Sjónvarpsborð úr Ikea.
  • Lítið skrifborð, 100x60 cm, beykimynstrað með hvítum fótum úr IKEA.
  • Hinn gríðarfagri Vestby fataskápur.
  • Tveir klassískir stálstólar með fléttuðu baki og setu. (Glyttir í annan lengst til vinstri á þessari mynd.)
  • Sérlega harðgerð pálmaplanta (hefur lifað af heilt ár í glugganum hjá mér, sést á myndinni sem vísað er á hér að ofan).
  • 8 púnsbollar úr gleri, notaðir sem kertastjakar í ammælinu mínu.
  • Eitthvað smálegt úr eldhúsinu; bollar, glös og þess háttar.
  • Kannski læt ég krúttlega DVD spilarann minn ef gott boð berst.

Ef einhver hefur áhuga, endilega hnippið í mig.


< Fyrri færsla:
Latur en eirðarlaus
Næsta færsla: >
Nýtt leikfang móttekið
 


Athugasemdir (2)

1.

Siggalára reit 25. september 2006:

Verðuru þá alkominn heim í Hugleikinn?

2.

Þórarinn sjálfur reit 25. september 2006:

Jamm, ég verð það. Hugleikinn sem sjaldan fyrr.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry