Allt að hafast

Jæja, sit hér eftir miðnætti að staðartíma sötrandi øl og á leið í bólið í síðasta sinn hér í .dk (næstu nótt sef ég svo á vindsæng hér í .dk). Herbergið lítur út eins og handsprengju, vopnaðri flutningakössum og umbúðapappír hafi verið hent hér inn. Hef trú á að rykið lægi í fyrramálið þegar ég fer að ryðja kössum fram á gang og henda rusli út í gám.

Á morgun er svo ætlunin að klára niðurpökkun og virkja Sigurð Högna í að drusla rúminu niður stigana og kössum í og úr lyftunni. Aka svo draslinu (með aðstoð sendibílsstjóra af austurlenskum uppruna) í vöruskemmu Samskipa og sjá hvaða viðtökur ég fæ. Hjóla svo heim og draga upp þvottasvampana (vill svo skemmtilega til að yfir mér vofir líka ganghreingerning - reyni að slá tvær flugur í sem fæstum höggum).

Annað kvöld er bara að blása upp vindsængina sem ég er búinn að fá að láni hjá nýstöðnum meistara Hirti. Ég á svo bókaðan tíma í úttekt húsvarðar kl. 10 á föstudagsmorgun og þaðan er bara að bruna út á flugvöll með alla mína yfirvikt (nýkeypti töskugámurinn er þegar kominn yfir 20 kíló og margt eftir ópakkað enn). En maður verður nú að styðja flugfélögin og borga þeim smá yfirvikt svona einstaka sinnum.

Þar sem ég mun byrja morgundaginn á því að skrúfa skrifborðið mitt í sundur efast ég um að ég nenni að færa fleiri dagbókarfærslur fyrr en ég verð kominn til Íslands (og þá líklega í einhverjum netsníkjum, enda hef ég ekki druslast til að gera neitt í þeim málum enn).

Þannig að með fyrirvara um breytingar á plönum gerist ég hér með svo djarfur að kveðja frá Köben að sinni, næsta dagbókarfærsla verður að öllum líkindum færð á blessuðum klakanum.


< Fyrri færsla:
Myndum bætt við
Næsta færsla: >
Barasta kominn heim
 


Athugasemdir (1)

1.

Margrét reit 04. október 2006:

síí jú beibí...

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry