Stormur og steik

Hér á Flyðrugrandanum var viðhafður töluverður viðbúnaður fyrir yfirlýstan storm laugardagskvöldins.

Útigrillið var fært yfir í afmarkaðasta krók svalanna og sumarhúsgögnunum lox dröslað niður í geymslu. Gluggar voru skáteipaðir og sandpokum í tugavís staflað á svalirnar.

Teknar voru tvær DVD myndir (snemma) og keypt lambasteik til ofnbökunar (enda ekki á útigrillun treystandi ef stormurinn kæmi of snemma). Ef rafmagn færi var til reiðu stafli af kertum og hnefatafl til að hafa ofan af fyrir heimilismönnum.

Baðkarið var fyllt af vatni og ef úr yrði viðvarandi rafmagnsleysi var prímusinn og nokkur kíló af niðursoðnum saxbauta til reiðu.

Öllum þessum aðgerðum var lokið fyrir kvöldmat og við héldum niðri í okkur sameiginlegum andanum í bið eftir ógnarveðrinu og fjörbrotum náttúrunnar.

En okkur til mikilla vonbrigða bólaði eiginlega ekkert á storminum hérna í hinu annálaða rokrassgati Vesturbænum. Þetta varð eiginlega aldrei nema strekkingur svo við yrðum vör við.

Steik í steik

Lambasteikin úr Nóatúni olli líka vonbrigðum, en af öðrum toga þó.

Mér finnst orðið grunsamlega oft sem ég þarf að matreiða eitthvað í ofninum mun lengur en gera mætti ráð fyrir. Dettur einna helst í hug að hitastillingin á honum sé eitthvað farin úr skorðum. Það tók a.m.k. miklu lengri tíma að fá steikarhitamæli til að mjakast upp á við heldur en ráð var fyrir gert.

Á endanum sneiddi ég bitann niður og skellti á pönnu. Hins vegar var kryddunin ógurlega sölt og steikin náði sér einhvern vegin aldrei almennilega á flug.

Síðar hef ég af nákvæmni raunvísindamannsins sannreynt að ofnhitastigið er a.m.k. rétt við 100°C (kjöthitamælirinn nær ekki hærra). Ég veit ekki hvort ég legg í að skrúfa hitamælinn úr gasgrillinu til að tékka á hinum hærri hitastigum.

Miklu einfaldara að grilla bara í logninu...


< Fyrri færsla:
Við rífandi undirtektir
Næsta færsla: >
Húsgögn fást gefins
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry