Umsögn um Upphefðina

Við Alex vorum að koma af The Prestige (Upphefðinni) með Jackman og Bale. Fín mynd.

Eins og fram hefur komið í kynningarefni og eins og hæfir eðli myndar um sjónhverfingamenn er mikið um að ekki sé allt sem sýnist og handritið leggur sig fram um að blekkja áhorfendur.

Nú ætla ég ekki að reyna að halda því fram að ég hafi séð í gegnum öll tvistin, en með hvísli okkar skötuhjúanna á milli held ég að við höfum séð í gegnum allar lykilblekkingarnar. Ekki endilega alltaf með góðum fyrirvara, en þó áður en þær voru afhjúpaðar.

Það er reyndar forvitnilegt að velta því fyrir sér hvort mér hefði að lokum tekist að sjá í gegnum það sem Alex var fyrri til að spotta (og öfugt). En það er eðli leiksins að maður kemst víst aldrei að því...

Og þó mér sé það þvert um geð verð ég að viðurkenna að Alex sá í gegnum stærra lykilplott en ég (og þetta játa ég bara þar sem hún er rétt í þessu að snúa upp á handlegginn á mér...)

Heilt yfir er myndin annars mjög flott, það tekst vel að búa til sannfærandi andrúmsloft og allir leikararnir eru meira eða minna brilljant.

Eini gallinn er kannski að hún er mjög ruglingsleg framan af, þar sem hún er ekki sögð í réttri röð og er í öllum aðalatriðum að gerast á þremur tímabilum og til að flækja málin enn eru báðar aðalsöguhetjurnar að lesa upp úr dagbókum hins (og þannig ljá hugsunum hins sína rödd).

En ef maður sýnir þessu þolinmæði og leyfir sér bara að hrífast með sögunni skýrist tímalínan smám saman.

Ef ég væri neyddur til að gefa henni einkunn held ég að ég sé nokkuð sammála IMDB og notendum á Metacritic, 3,5 til 4 stjörnur af 5 mögulegum...


< Fyrri færsla:
Djammað með Birni
Næsta færsla: >
Ekki meiri Cleese!
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry