300 stæltir skrokkar

Fór á forsýningu á 300 í boði meistara Jóns Heiðars í gærkvöldi. Það reyndist, eins og við var að búast, ofbeldisorgía mikil og prýðileg skemmtun.

Þetta er virkilega flott mynd og mikið sjónarspil. Persónusköpun og annað í þeim dúr er (auðvitað) í skötulíki, en hasarinn þeim mun meiri.

Fyrir þá sem ekki þekkja til er þetta unnið upp úr myndasögu um þann atburð þegar 300 Spartverjar héldu aftur af mörg þúsund Persum í frægri orustu. Ofbeldið er eðli málsins samkvæmt gríðarlegt en það stílíserað að það stuðar mann ekki heldur virkar meira teiknimyndasögulegt.

Þetta er klárlega mynd sem maður verður að sjá í bíó (eða í neyð á stóru sjónvarpi með góðu hljóðkerfi), enda stemmningsmynd sem líður örugglega fyrir sjónvarp í frímerkjastærð.

Ég tók reyndar eftir því í hinu margauglýsta stafræna bíói að það er hluti af áferð myndarinnar að hafa hana svolítið kornótta, sem rekst eilítið undarlega á hin "stafrænu gæði" þar sem allt ætti að vera slétt og fellt.

Í sjónarspilinu öllu og furðuverum ýmiss konar truflaði það mig dálítið hvað bólusetningarörið á upphandlegg spartnesku drottningarinnar var áberandi eftir að maður hafði einu sinni tekið eftir því, enda er hún í ermalausum flíkum alla myndina. Það hefði alveg mátt setja förðunardeildina í að sminka yfir það - nú eða fjarlægja stafrænt.

(En kannski voru Spartverjar búnir að finna upp bólusetningar, hvað veit ég?)

Allar hetjurnar hljómuðu eins og afkomendur James Earl Joneas (nema drottningin reyndar) og það kom bara vel út. Tónlistin átti síðan vel við, meira að segja þegar metalrokk birtist allt í einu eins og þruma úr heiðskírum sauðslegg.

Meirihluti bíógesta voru tippalingar rétt skriðnir yfir gelgjuna, en það ætti að vera þarna sitthvað sem höfðar líka til stelpna; smá tilfinningaþvæla og auðvitað 300 stæltir skrokkar sem eru meira eða minna naktir myndina út í gegn.

Ekki mynd sem skilur mikið eftir, en flott afþreying.


< Fyrri færsla:
Mynd úr skápnum
Næsta færsla: >
Teljari í steik
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry