Fyrir ári síðan

Um þessa helgi er liðið slétt ár frá því að við Alex hittumst fyrst, nánar tiltekið á St. Patrick's degi á ITU barnum.

Alex kom þangað með Sigga og Huld sem höfðu reynt að vera laumuleg yfir leynigestinum, en ég var nokkuð viss í hvað stefndi þegar ég fékk SMS frá Sigga að tékka á því hvort ég yrði ekki örugglega á barnum.

Ég væri að ljúga ef ég fullyrti að himinn og jörð hefðu skolfið þegar hún birtist á ITU, en boltinn rúllaði rólega af stað í framhaldi af þessum fyrsta hittingi.

Metnaðarfull áform

Í tilefni "afmælisins" voru uppi metnaðarfullar áætlanir um geðveika bæjarferð með bita, bíó og bjór (enda erum við gríðarlegir djammboltar eins og alþjóð veit).

Eftir að hafa verið allan daginn að hjálpa mömmu hennar að mála herbergi vorum við hins vegar léttpunkteruð þegar heim kom, og það endaði með því að eftir heitt bað hrundum við í sófann í baðsloppunum, hrundum í það með einni hvítvínsflösku og súkkulaðitertu, horfðum á þátt af Heroes og skældum svo yfir nokkrum þáttum af Grey's Anatomy (annað okkar þó meira en hitt).

Nei, við erum ekki orðin gömul!

Stefnt er á aðra tilraun í kvöld, þótt bjórinn verði líklega fjarlægður úr jöfnunni.


< Fyrri færsla:
Teljari í steik
Næsta færsla: >
Desktop Tower Defense
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry