Skakklappast á Fimmvörðuháls

Við Alex erum að fara með Útivist í jónsmessunæturgöngu yfir Fimmvörðuháls í nótt. Förum úr borginni með rútu klukkan sjö og ætli við verðum ekki búin að reima á okkur skó og bakpoka til að hefja klöngr milli tíu og ellefu.

Ætlunin er svo að skila sér í mörkina á laugardagsmorgni, finna tjaldið og reisa til þess að reyna að ná í verðskuldaða kríu.

Útivist grillar svo um kvöldið og rútan leggur af stað í borgina um hádegi á sunnudegi.

Veðurspáin gæti varla verið betri, helst að það stefni í að það verði óþægilega heitt að sofa í tjaldinu á laugardeginum.

Ég ætla að gerast svo djarfur að sleppa t.d. regnbuxunum og legg þeim mun meiri áherslu á að eiga nóg af nasli í nýja bakpokanum til að halda uppi blóðsykrinum (og halda mér vonandi með því vakandi).

Fögur fyrirheit um stíf útihlaup og esjugöngur til að byggja upp þrek og styrk hafa farið fyrir mun minna en til stóð.

Mér skilst þó á reynsluboltum að í þessum næturgöngum sé frekar kvartað yfir því að farið sé of hægt heldur en hratt, þannig að ég ætti að geta haldið í við hópinn.

Þetta verður a.m.k. spennandi upplifun.

En hvers vegna í andsk. þarf ég að vakna með vott af beinhimnubólgu í hægri leggnum akkúrat í dag? Það ætti þó vonandi að liðkast af mér.


< Fyrri færsla:
Svindlið um hnatthlýnunarsvindlið
Næsta færsla: >
Fimmvörðuháls að baki
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 24. júní 2007:

Vona að þið hafið komist heil niður í Mörkina og haft gaman af. Aldrei farið þetta sjálfur, verið lengi á to-do listanum og verður þar áfram enn um sinn.
Vissi annars ekki að það væri hægt að koma sér upp beinhimnubólgu í svefni. Þarf ekki að vera á hreyfingu til að fá slíkt?

2.

Þórarinn sjálfur reit 24. júní 2007:

Komin heil til byggða, örlítið strengjuð en að öðru leyti hress.

Já, þetta með beinhimnubólguna er merkilegt. En hún er vatn undir brúna og nú hafa aðrir verkir tekið hennar sess...

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry