Ágúst nálgast óðum

Enski boltinn byrjar á fullu 11. ágúst og skömmu áður fer í loftið Sýn 2 - stöðin sem búin var til sérstaklega fyrir "ránsfenginn".

Þrátt fyrir skemmtilegar sjónvarpsauglýsingar (með óléttu körlunum) virðist margt annað hálf klaufalegt við markaðssetninguna.

Til dæmis fylgir stöðinni flóknasta verðskrá sem um getur. Einhver hefur gersamlega farið hamförum í Excel skjali einhversstaðar. Þar má meðal annars sjá að þeir sem eru með Stöð 2 fyrir borga 2.700 krónur til að bæta Sýn 2 við, en þeir sem borga þegar bæði fyrir Stöð 2 og Sýn (og eru þar með í hærri afsláttarflokki) borga 2.800 (ég rúnnaði tölurnar, í verðskránni eru engin "hrein" hundruð).

Nýjasta útspilið er svo auglýsing um að þeir sem panti á netinu fái 30% afslátt fyrsta mánuðinn.

Af áhorfi sem byrjar 11. dag mánaðarins... það hljómar nokkuð nærri lagi.

(Góðgerðarskjöldurinn er reyndar þann 4. 5. en þeir auglýsa sjálfir að stöðin byrji 11.).

Undanfarnar vikur hefur verið hringt grimmt í núverandi áskrifendur (og aðra) til að bjóða þeim Sýn 2. Til dæmis er búið að hringja í Alexöndru, mömmu hennar og systur (sú síðastnefnda er ekki áskrifandi) en engin þeirra hefur enn bitið á agnið.

Annars held ég að það yrði rífandi sala ef boðið yrði upp á pay-per-view möguleika. Í dæmigerðum mánuði eru sirka 4-6 leikir sem ég hefði áhuga á að horfa á (3-4 með mínum mönnum og nokkrir stórleikir aðrir) og þar af varla ekki nema 2-3 sem ekki rekast á önnur áform.

Ef við Alex bættum Sýn 2 við núverandi áskrift þýðir það að ég væri að borga ca. þúsund kall á leik, það er svolítið hátt (og væri enn hærra ef við værum ekki með áskrift fyrir).

Ég er einn þeirra sem væri alveg til í að borga nokkra hundraðkalla fyrir hvern leik sem ég pantaði, en meðan það er ekki í boði held ég áfram að draga lappirnar...

Af samtölum við vinnufélagana að dæma er ég alls ekki einn um það.

Og nú þegar boltabarirnir eru orðnir reyklausir er aldrei að vita nema þúsundkallinum sé betur varið í veitingar þar.

Ég held að 365 séu svo uppteknir við að reyna að græða sem mest á þessu að þeir séu jafnvel að verðleggja sig frá mögulegum viðskiptavinum. Þetta er klassíska spurningin um hvort reynt er að hafa litlar tekjur af mörgum eða meiri af færri, auðvitað reyna menn eins og þeir geta að fiska þá stóru fyrst - en hver veit nema einhverjir afslættir skjóti upp kollinum síðar.

Þ.e. raunverulegri afslættir en það að borga 70% fyrir 2/3 úr mánuði.


< Fyrri færsla:
Nördast á makkanum?
Næsta færsla: >
Stefán Jónsson kvaddur
 


Athugasemdir (1)

1.

Óskar Örn reit 02. ágúst 2007:

Enska deildin hefur haft meiri áhrif á veraldarsöguna en ég gerði mér grein fyrir:
http://www.youtube.com/watch?v=jg5HsG7AN1Y

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry