Logi

Ljóð og annar barningur

Kertaloginn minn brennur
og brennur.
Bjartsýnn
á að kertið sem honum
hefur verið úthlutað
endist honum að eilífu.

Það sem loginn minn
veit ekki,
getur ekki vitað
(og leiðir því vandlega hjá sér)
er hversu miklu af kertinu
hann hefur brennt
og hversu mikið er eftir.

Loginn minn gleðst
í súgnum.
Þar logar hann
bæði bjartar og skærar.
(Svolítið flöktandi að vísu)

Hvaða logi skyldi vilja lifa
í lognmollu
allt sitt líf
þegar til er súgur?
(Skítt með það þótt kertið
eyðist örlítið hraðar).

Hvað skyldi loginn minn
hugsa
þegar það rennur upp
fyrir honum
að kertið er búið
og hans bíður bara
að slökkna,
saddur lífdaga?

Sáttur?
Saddur?


Samið 4. des 1996 í próflestri. Birtist í Lesbók Morgunblaðsins næsta vor, en þangað sendi ég þetta í hálfkæringi og vissi ekki af birtingunni nema vegna þess að vinkona mín benti mér á ljóðið.

Mér vitanlega eina skáldverkið mitt sem hlotið hefur svo víðtæka dreifingu.

Ekki ber að líta svo á að próflesturinn hafi orsakað drungablæinn - þetta var létt fag.