Um mig
Hluti af um-inu
Það er aldrei auðvelt að gefa hlutlausa lýsingu á sjálfum sér, en ég get þó fullyrt með nokkurri vissu að ég er fæddur ´73, hef fengist við ýmislegt um dagana og stunda núna mastersnám í Kaupmannahöfn. Ég á líka að vita betur en að skrifa svona langa setningu í veftexta.
Til að þetta verði ekki sjálfhverft um of (sem er auðvitað löngu skeður skaði) ætla ég að vitna í Carmínugreinina mína þar sem vinir mínir lýsa mér á menntaskólaárunum. Á þeim ... örfáu árum sem síðan eru liðin held ég að ég hafi ekki breyst svo mikið.
Carmína ´93
Þórarinn Stefánsson
Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. En ekki Þórarin. Hann skapaði fugla himinsins og dýr merkurinnar. En engan Þórarin. Hann skapaði meira að segja mann og konu sem sköpuðu fleiri menn og fleiri konur sem sköpuðu enn fleiri menn og konur uns allt var orðið krökkt af mönnum og konum. En enn bólaði ekkert á Þórarni. Loks var svo komið að ekki þótti stætt á þessu lengur og dag einn um það bil níu mánuðum fyrir 2. apríl 1973 tóku þau heiðurshjón Stefán og Helga Jóna sig til og sköpuðu Þórarin. Fæðingin gekk svo að óskum nema hvað beita þurfti kúbeini til að ná út nefinu góða.
Framan af dvöl hans hér bar lítið á kauða þrátt fyrir óravíddir hans, og dundaði hann sér helst við að merkja strokleðrin sín, leika við Albert frænda og leiðrétta villuráfandi félaga sína varðandi öll litlu smáatriðin sem engu máli skipta, auk þess sem hann safnaði sér einkunnum úr efri hluta heiðhvolfsins. Einhvers staðar á þessu tímaskeiði festist við snáðann viðurnefnið Tóró, en nafnið þýðir "nýmáluð ristilbólga" á máli hinna fornu Azteka og er tilvísun í króníska samviskusemi hans.
Í 3. bekk dundi svo ógæfan yfir: Tóró tók þátt í 1. des sýningu LMA og ranglaði um sviðið í Tunnunni undir áhrifum skynjunarvíkkandi lyfja með strútshreiður á hausnum, við gífurlegan fögnuð skólasystkina sinna. Í þessu annarlega ástandi rann upp fyrir strák að miðpunktur athyglinnar er alls ekki það versta sem hægt er að vera. Síðar hefur athyglissýkin náð æ sterkari tökum á Tóró, uns nú er svo komið að hann má ekki sjá míkrófón án þess að krefjast þess að fá að segja nokkur orð í hann, og hefur vera hans í hinu alvarlega athyglissýkta bocciafélagi ÞRUMU síst orðið til að bæta ástand hans.
Tóró kann ekki að fara með vín, þ.e. hann drekkur aldrei nógu mikið af því! Allt frá því að hann gerði sér gleraugu úr tveimur flöskubotnum er hann var kiðlingur hafa samskipti hans við áfengisflöskur aðallega verið á þá lund að hann hefur dregið djúpt sokkna félaga sína upp úr þeim á neyðarstundum, og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.
Því fer þó víðs fjarri að Tóró sé einhver leiðindaskarfur, þó þessi vankaða grein gefi kannski tilefni til að ætla að svo sé! Gaurinn er vinur vina sinna, og getur verið hreint afbrigðilega orðheppinn (enda að eigin sögn fæddur húmoristi, þó það hafi að mestu elst af honum). Pilturinn kann að nota á sér kollinn, og eftir að hann náði tökum á að spila E-moll á gítar eru honum allir vegir færir!
Heyrt fleygt:
"Sko, þetta er í rauninni mjög einfalt..."
"Sko, nú skal ég útskýra þetta fyrir ykkur..."
"Sko, ég vil hafa þetta svona..."
Strákarnir í ÞRUMU eru sætir.
Skráð af Óskari Erni Óskarssyni og Erni Kristinssyni. Teikningin er eftir Birgi Rafn Friðriksson