Týndur massi
22. apríl 2003 | 0 aths.
Ég hef alltaf verið frekar grannur, en fyrir ári eða svo var kyrrsetan farin að segja fullmikið til sín og magavöðvarnir orðnir heldur framsettir. Ég ákvað því að reyna að gera eitthvað í málunum, varð aðeins meðvitaðri um það hvað ég borðaði og fór að hreyfa mig reglulega. Síðastliðið sumar hljóp ég einn, en í vetur var ég í samfloti með Langhlauparafélagi Reykjavíkur 1-2 sinnum í viku.
Ég hef ekki átt vog, þannig að ég hef ekki mælt sérstaklega hvort ég væri að léttast nema með óbeinum sjónmatsmælingum með aðstoð spegils. Nú ætla ég hins vegar að fara að þyngja mig aftur og reyna að bæta á mig smá bringukjöti. Því þótti mér rétt að útvega mér vog. Eftir að hafa vikið mér undan því að kaupa 13 þúsund króna baðvog í Kringlunni (helv. flotta) endaði ég með því að grípa 690 króna vog í IKEA.
Ég efast reyndar um að löggilding fáist á vogina, en treysti á að hún hugsanleg skekkja sé kerfisbundin og þannig hægt að mæla breytingar nokkuð nákvæmlega. Þegar ég prufukeyrði hana skömmu fyrir skírdag mældist ég 82 kg léttklæddur. Það þykir mér helvíti gott, því ég var 83 kg þegar ég kláraði menntaskóla fyrir tæpum 10 árum síðan (og geri aðrir betur!). Það verður fróðlegt að sjá í hvaða þyngdarflokki samstúdentar mínir eru flestir á stúdentsafmælinu í sumar.
Fyrir ári sló ónefnd baðvog í 90 kg með mig fullklæddan, svo rýrnun ársins er tæp 10 kg. Ekki svo að skilja að ég hafi farið í megrun - þvert á móti borða ég allt sem mig langar í. Reyni bara að borða léttar máltíðir inn á milli og ekki endilega að borða alltaf á mig gat. (Held samt að mestu muni um hreyfinguna).
Um páskahelgina hurfu reyndar tvö kíló til viðbótar, þrátt fyrir stórsteikur sem greinilega dugðu ekki til í dugnaði við flutninga á búslóð foreldranna.
Nú er ég kominn með 5 mánaða kort í ræktina, er að farast úr strengjum í bringunni og stefni á að troða mig út af skyri og rjómaís í öll mál. Svo er bara að sjá hvert það leiðir...
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry