Minningarbrot

Móðuramma mín lést skömmu fyrir páska. Vitað var að hverju stefndi og við bræður heimsóttum hana með mömmu á pálmasunnudag í síðasta sinn. Hún skildi svo við morguninn eftir.

Kistulagning var síðasta vetrardag og var um leið ígildi jarðarfarar hér í höfuðborginni. Ég fór ekki vestur í Bolungarvík þar sem hún var jarðsett við hlið afa á annan sumardag. Þetta var fyrsta jarðarförin sem ég fer í. Má ekki líta á það sem vissa blessun?

Ég væri að ljúga ef ég héldi því fram að ég hefði ekki meyrnað meðan á athöfninni stóð.

Á svona stundum hugsar maður til baka og rifjar upp. Það er merkilegt að það sem stendur manni skýrast fyrir hugskotssjónum eru litlir atburðir sem maður tók varla eftir.

Þegar ég var í háskólanum bauð amma mér einu sinni í kvöldmat. Ég brunaði í strætó upp í Breiðholt og fékk hjá henni dýrindis saltkjöt með rófum og tilheyrandi. Ég hafði vanið mig á að drekka mikið vatn með öllum mat (úr stóru glasi). Skiljanlega leist ömmu ekki á blikuna þegar ég hellti mér í fimmta vatnsglasið og hún hafði miklar áhyggjur af því hvort kjötið væri of salt. Ég átti í basli með að sannfæra hana um að svo væri ekki heldur þætti mér bara gott að drekka mikið vatn. Við áttum þarna notalega máltíð við eldhúsborðið, og þetta kvöld er það fyrsta sem kemur upp í kollinn á mér þegar ég rifja upp minningar um ömmu.

Ég man líka hvað það gat verið yndislegt að fylgjast með því þegar báðar ömmur mínar hittust. Þær voru báðar orðnar minnislitlar og gátu kjaftað hvora aðra inn í þvílíkar ógöngur og áhyggjur yfir litlu sem engu. Þær voru eiginlega eins og aldraðar smástelpur.

Nokkur tár ofan í lyklaborðið verða mín minningargrein.


< Fyrri færsla:
Týndur massi
Næsta færsla: >
Teiti, næturlífsúttekt og vangaveltur um nafnabreytingu
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry