október 2003 - færslur
05. október 2003 | 0 aths.
Í gær hélt ég samsæti að heimili mínu, sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að maður heldur allt of sjaldan partí. Mætingin var þokkaleg, sérstaklega í ljósi þess hvað boðið var með stuttum fyrirvara. Frændsystkini mín voru í meirihluta og sérstaklega gaman að sjá Gunna frænda, nýstiginn upp úr alvarlegum veikindum, þreytulegan en hressan.
14. október 2003 | 0 aths.
Í gær hringdi ég í fyrsta sinn í neyðarnúmerið 112 á æsilegri för eftir Bústaðaveginum, nauðsyn brjótandi lög með gemsann ófrjálsan í hendi, skiptandi um gíra með þeirri vinstri, með lögregluþjón í eyranu.
19. október 2003 | 0 aths.
Þessa dagana þykist ég vera að undirbúa mig fyrir að taka eitt hinna amerísku krossaprófa dauðans, GMAT, sem er gerð krafa um í flestum bissnisskólum erlendis, sér í lagi ef sótt er um MBA nám sem ég er alvarlega að velta fyrir mér að taka til alvarlegrar athugunar að skoða í fullri alvöru sem hugsanlegan möguleika. Eða þannig.
24. október 2003 | 0 aths.
Undanfarnar vikur hef ég verið að lesa mér til og æfa mig fyrir GMAT, sem er staðlað amerískt próf sem er inntökuskilyrði í flesta skóla sem bjóða MBA nám (eða skyld stjórnunarfög). Þetta próf er aðeins haldið einu sinni á ári á Íslandi, á morgun, en nú er ljóst að ég fer ekki.
25. október 2003 | 0 aths.
Eins og áður hefur komið fram fór ég ekki í GMAT próf í dag. Þess í stað var ég niðri í Ráðhúsi frá því klukkan 10 í morgun að setja upp hina stórmerkilegu sýningu Lifandi landakort sem haldin er í tilefni af 15 ára afmæli Landupplýsingakerfis Reykjavíkur og þar sem ég mun teljast formaður undirbúningsnefndar.
27. október 2003 | 0 aths.
Þá er öðrum degi hinnar merku afmælishátíðar lokið.
Opnunin var í gær, sunnudag, og var ég mættur glaðbeittur niður í Ráðhús um hádegið til að blása m.a. upp LUKR afmælisblöðrur með vetni. Efnafræðinámið kom að góðum notum við að tengja kútinn og uppblástur gekk vel. Við blésum blöðrurnar upp á skrifstofu Hreins kollega míns í Ráðhúsinu og það þurfti ákveðna lagni til því í helmingi skrifstofunnar er töluvert hærra til lofts en í hinum helmingnum. Þær voru nokkrar sem sluppu þangað upp og við göntuðumst með að nú hefði hann eignast nýja vini.
28. október 2003 | 0 aths.
Í morgun var, sem hluti af LUKR afmælishátíðinni, "Borgin í bítið" morgunfundur. Hann átti að hefjast klukkan 8:30 með morgunsnarli og ég vissi að ég yrði að sýna sjálfsstyrk og ná að rífa mig fram úr án teljandi tafa.
31. október 2003 | 0 aths.
Eftir vinnu brunaði ég upp í Mjódd; náði í bolinn, kippti með Tiger-kippu úr ríkinu og matvöru úr Nettó. Leit svo við hjá Gunna frænda með DVD disk frá Ella. Afþakkaði boð um kvöldmat en lofaði að reyna að kíkja frekar á sunnudeginum.
30. október 2003 | 0 aths.
Eftir vinnu í dag skaust ég í klippingu og fór svo í Tónabúðina og keypti trommukjuða. Allt hluti af grímubúningnum góða.
Fór svo heim með bílinn og gekk niður í miðbæ þar sem Höfuðborgarstofa var að kynna nýtt markaðsátak og borgarstjóri bauð í léttvín og pinnamat. Gerði hvítvíninu betri skil en ég hafði gert í síðustu móttöku og rabbaði við kunnugleg andlit héðan og þaðan úr borgarkerfinu.