Teiti, næturlífsúttekt og vangaveltur um nafnabreytingu
05. október 2003 | 0 aths.
Í gær hélt ég samsæti að heimili mínu, sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að maður heldur allt of sjaldan partí. Mætingin var þokkaleg, sérstaklega í ljósi þess hvað boðið var með stuttum fyrirvara. Frændsystkini mín voru í meirihluta og sérstaklega gaman að sjá Gunna frænda, nýstiginn upp úr alvarlegum veikindum, þreytulegan en hressan.
Einn gestanna missti út úr sér að íbúðin mín væri "falleg". Ég fór eiginlega alveg í kleinu og veit ekki enn hvernig á að skilja það. Skiljanlegt ef hún hefði notað orð eins og smekkleg eða skemmtileg, en falleg íbúð? Íbúðin mín? Ég held ég gæti þurft á áfallahjálp að halda.
Heimtur niður í bæ voru ekkert sérlega góðar, það voru ekki nema tveir leigubílar sem fóru þangað - aðrir gestir tóku stefnuna heim. Til að bæta gráu ofan á svart skorti eitthvað á samhæfingu þannig að við Öddi enduðum niðri á Austurvelli en farþegarnir úr hinum bílnum uppi á miðjum Laugarvegi. Veðrið var ekki þannig að það væri spennandi að labba upp á Ölstofu þannig að við félagarnir einbeittum okkur að úttekt á Austurstræti og nágrenni. Hröktumst undan kulda inn á Thorvaldsen og hittum þar nokkrar bekkjarsystur okkar úr MA og vorum þar við spjall og skankaskak um nokkra hríð. Tónlistin áhugavert fyrirbæri, á löngum kafla kom ekkert lag yngra en 10 ára, bara klisjur sem líka voru spilaðar á diskótekum menntaskólaáranna. Líklega verið að stíla inn á nostalgíu aldurshópsins sem stílað virðist inn á (aldurshópurinn minn, þó skömm sé frá að segja.
Á Thorvaldsen fékk ég hina klassísku spurningu af hverju ég væri kallaður eftir súpum. Ég gaf hið klassíska svar að Tóró væri í hornum prýdd höfuðin á spænskum nautum, en var þá spurður að því af hverju ég skrifaði það með ó-um. Mér fannst það góð spurning.
Að vísu gaf hljóðstig á dansgólfinu ekki færi á að útskýra að hvorki norsku súpurnar né El toro væru skrifuð með ó-um (þótt ég hafi einhvern tíman keypt mér vítamín frá íslenska fyrirtækinu Tóró - sem ég á allltaf eftir að tékka hvort enn er við lýði). Hins vegar datt mér í hug í framhaldi af þessu samtali hvort ég eigi að prófa að breyta rithættinum og skrifa mig sem "Toró" til að ná betur hljómnum í nafni spænsku tarfanna. Ég ætla að prófa þetta og sjá hvernig mér líkar áður en ég gef út formlega tilkynningu til mannanafnanefndar.
Svo farið sé út í smá orðsifjafræði þá varð Tóró (Toró) nafnið til í menntaskóla þegar í kvöldverðarumræðu í mötuneytinu var reynt að finna á mig styttra nafn en Þórarinn. Mér hefur aldrei líkað að vera kallaður Tóti (þótt það hafi á tímabili loðað við mig fyrir austan). Eftir tilraunir með samkrull "Þór..." "Þóró" og "Tóti" varð til "tóró" og þótti tilkomumikið - sér í lagi með tilvísun í títtnefnd spænsk naut. Stafsetningin var reyndar ekki fastsett, en ég hef hingað til skrifað það með tveimur óum og sem toro í tilviki t.d. tölvupóstfanga.
Aftur að næturlífsúttekt okkar Arnar. Þegar við höfðum fengið nóg af Thorvaldsen, Abba og Gleðibankanum þvældumst við yfir á Astró sem ég hafði tekið eftir í blaðaauglýsingum að auglýsti ókeypis inn. Ég held að þarna hafi ég upplifað einn kafla í hinni eilífu sögu um ris og fall skemmtistaða því þetta var eins og að detta inn á menntaskólaball, drukknir smákrakkar í strigaskóm. Ekki alveg minn tebolli.
Uppveðraðir í hlutverkum landkönnuðanna var okkar næsta stopp á hinum nýtilkomna Pravda (áður Astró fyrir þá sem jafn lítið fylgjast með breytingum í næturlífinu og undirritaður). Það var merkileg upplifun. Þangað virðast hafa safnast saman (aftur?) hinir goðsagnakenndu Astrógestir - steraboltar og sílikonur, kakóbrún með tattú og aflitað hár. Í fullu starfi við að vera töff og kúl. Inn á milli voru einstaka sakleysingar eins og gestir í dýragarðinum. Eflaust gósenland mannfræðinganna.
Þegar hér var komið sögu var ég búinn að fá nóg af næturflandri enda farið að síga nær morgni heldur en miðnætti, svo ég kvaddi Ödda og rölti í leigubíl í næturúðanum.
Fleira gerðist ekki markvert þá nóttina.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry