Eftirför um nótt, 112 og sírenuvæl

Í gær hringdi ég í fyrsta sinn í neyðarnúmerið 112 á æsilegri för eftir Bústaðaveginum, nauðsyn brjótandi lög með gemsann ófrjálsan í hendi, skiptandi um gíra með þeirri vinstri, með lögregluþjón í eyranu.

Kvöldið var afslappað og fínt fram undir miðnættið. Halla Sigrún MBA Sigurðardóttir sem afboðað hafði komu sína í teiti til mín vikunni fyrr var stödd í borginni í stuttri millilendingu á leið sinni til hinna skosku hálandakappa. Það var því blásið til hittings heima hjá Signýju við Ásgarðinn og þar dáðumst við að leðurbundinni og gullsleginni lokaritgerð Ms. Sigurdardottir, éttum nammi, ræddum landsins gagn og nauðsynjar og reyndum að leiða hjá okkur dólgslætin í læðunum hennar Signýjar.

Þegar farmiðarnir til Edinborgar voru komnir í leitirnar og geispar farnir að setja mark sitt á samræður var kvatt og undirritaður hélt út í nóttina á nýju vetrardekkjunum (svo nýjum að límmiðarnir sem dekkjagæjarnir sáu ekki ástæðu til að plokka af sitja enn fastir í gúmmítönnum gripsins).

Ég staldraði við á biðskyldu áður en ég lagði inn á Bústaðaveginn og stefndi í vesturátt. Allt var með kyrrum kjörum utan eilítils vindstrekkings, en það átti víst eftir að breytast.

Bíllinn sem ég hafði vikið fyrir fór ekki sérlega hratt yfir og leitaði heldur til vinstri á götunni. Seig smám saman hálfur yfir á hina akreinina og mér datt í hug hvort bílstjórinn hefði misst eitthvað á gólfið og hefði litið af veginum þess vegna. Það var reyndar engin umferð á móti þannig að ég hafði engar sérstakar áhyggjur fyrr en kauði keyrði upp á umferðareyju í miðri götunni og sat þar fastur!

Ég hafði tekið eftir því á leið minni í austurátt fyrr um kvöldið, nýstiginn upp úr Survivorglápi, að eitthvað væru þeir kollegar mínir á Gatnamálastofu að dytta að þessari eyju því á henni voru engin skilti og hrúga af lausum götusteinum ofan á henni.

Skiljanlega brá mér þegar títtnefndur bíll, sem var reyndar grá Mazda 323 - líklega um 10 ára gamall, endaði á eyjunni. Ég stoppaði fyrir aftan hann og beið eftir að bílstjórinn sem hlyti bara að hafa sofnað undir stýri kæmi út að athuga með skemmdir á bílnum. Ég kunni ekki við að troða mér framhjá honum enda þótti mér líklegt að farþeginn gæti opnað hurðina sín megin og þá hefði ég líklega ekið á hana. Mér brá hins vegar enn meira þegar bílstjórinn gaf í og skrölti bílnum aftur niður af eyjunni og rakst harkalega í kantsteininn í hægri vegbrúninni áður en hann hélt sikksakkandi áfram eftir Bústaðaveginum.

Þegar hér var komið sögu var náttúrulega ekkert annað að gera en að grípa símann og reyna að ná sambandi við lögguna. Ég er nú ekki vanari að hringja í 112 en svo að fyrst sló ég inn 118. Áttaði mig þó á villu míns vegar áður en símaskráin náði að svara. Neyðarvaktin svaraði fljótlega og eftir að ég hafði lýst aðstæðum í stuttu máli sagðist vaktin ætla að gefa mér samband við lögregluna.

Við tók afskaplega löng bið þar sem hringdi í sífellu og ég silaðist á eftir Mözdunni sem áfram skjögraði milli veghelminga, blessunarlega á frekar lítilli ferð. Ég hafði reyndar ekki hugmynd um hvað ég ætlaði að gera eða ætti að gera, en ákvað að halda áfram að elta bílinn í þeirri von að ég gæti þó að minnsta kosti flautað eða gert eitthvað til að koma í veg fyrir yfirvofandi árekstra. Eftir einhverjar 10 hringingar svaraði svo lögregluþjónninn á vakt og við reyndum í sameiningu að koma okkur saman um það hvar ég væri staddur og hvernig ástandið væri.

Þá var ég stopp (ásamt með vini mínum ofurbílstjóranum) við ljósin á gatnamótum við Háaleitisbrautina. Sem betur fer hafði hann þrátt fyrir allt rænu á að stoppa á ljósum því annars veit ég ekki hvernig þetta hefði farið. Hann hafði hins vegar ekki mikið meiri rænu en svo að hann hélt varla höfði og virtist hafa týnt bæði gírum og bremsu því hann fór að renna rólega aftur á bak og það endaði með því að ég varð að setja í bakkgírinn og hopa undan.

Í símanum tókst lögregluþjóninum ekki að fletta bílnúmerinu upp í tölvunni hjá sér þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar til að sannreyna að við værum með rétt númer, Ingi-Sigurður-X-2-X. Þess á milli greip ég fram í með lýsingum á nýjustu afrekum vinar vors og blóma sem nú nálgaðist smám saman brúna yfir Hafnarfjarðarveginn. Á tímabili stefndi í fyrsta árekstur kvöldins þegar herra Öruggur seig snögglega til vinstri og var næstum búinn að strauja konu á lítilli svartri Lödu. Hún náði sem betur fer að bremsa í tæka tíð. Henni hefur örugglega dauðbrugðið því hún stoppaði og það leið svolítil stund áður en hún lagði aftur af stað.

Þegar við vorum lagðir út á brúna yfir Hafnarfjarðarveginn gaf okkar maður skyndilega stefnuljós til hægri, um það bil 2 metrum eftir að hann fór fram hjá fráreininni til hægri. Ég hélt á tímabili að hann ætlaði að reyna að troða sér öfuga leið út á þá frárein en hann hélt bara áfram sínu skjögri en nú með stefnuljósi. Í bjartsýni minni vonaði ég að hann ætlaði að leggja út í kant, en hann var engan vegin á þeim buxunum.

Um það leyti sem við vorum að vera komnir yfir brúna (sem ég held að ég hafi aldrei ekið jafn rólega yfir) tók ég eftir að lögreglubíll var að koma úr hinni áttinni og hann skellti upp blikkljósum og sírenum og snaraði sér yfir á okkar akrein. Löggimann í símanum þakkaði fyrir og við lögðum hvor á annan.

Ofurbílstjórinn lét sér hins vegar ekki segjast, heldur gaf í frekar en hitt og það var ekki honum að þakka að ekki varð úr þessu töluverður árekstur. Lögreglubílnum tókst að sveigja til hliðar og taka í beinu framhaldi ekkert-sérlega-elegant snúning (böðlandi sér yfir umferðareyjar) og hefja eftirför. Sú eftirför stóð ekki sérlega lengi því nokkur hundruð metrum síðar stöðvaði vinurinn og ég ákvað að mínu hlutverki væri lokið og fór rólega fram úr þar sem lögreglubíllinn var stopp aftan við vin minn og reyndi gegnum magnarakerfið að fá hann til að drepa á bílnum og koma út.

Á ljósunum þar sem beygt er í átt að hótel Loftleiðum kom svo annar löggubíl á blikkandi ljósum yfir gatnamótin (á rauðu). Loks voru tveir lögreglubílar til viðbótar að koma norður Snorrabrautina, en þeir stoppuðu hinir rólegustu á umferðarljósum þannig að ég geri ráð fyrir að lætin hafiþá verið um garð gengin.

Ég velti því fyrir mér hvort ég yrði kannski beðinn um skýrslu, enda hafa þeir bæði nafn og símanúmer hjá mér en það hefur ekki gerst enn. Mig grunar líka að ástand bílstjórans hafi alveg sagt alla söguna þegar þeim tókst loks að drösla honum út úr bílnum (sem ég geri ráð fyrir að hafi tekist að lokum).

Það var ekki laust við að það sem eftir lifði leiðarinnar heim hafi ég verið með nettan hjartslátt og ég fann mig knúinn að hringja í ungfrú MBA og segja alla sólarsöguna áður en ég leggðist til hvílu.

Fleira gerðist ekki markvert það kvöldið.


< Fyrri færsla:
Teiti, næturlífsúttekt og vangaveltur um nafnabreytingu
Næsta færsla: >
Skortur á sjálfsaga, hálfkák í næturbrölti
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry