Skortur á sjálfsaga, hálfkák í næturbrölti

Þessa dagana þykist ég vera að undirbúa mig fyrir að taka eitt hinna amerísku krossaprófa dauðans, GMAT, sem er gerð krafa um í flestum bissnisskólum erlendis, sér í lagi ef sótt er um MBA nám sem ég er alvarlega að velta fyrir mér að taka til alvarlegrar athugunar að skoða í fullri alvöru sem hugsanlegan möguleika. Eða þannig.

Ég fékk lánaða doðranta mikla hjá Halldóru mágkonu og hef reynt að grípa í lestur og æfingaspurningar við og við undanfarnar vikur. Gærdagurinn fór að mestu í slíkar setur, enda eina próftaka ársins hér á klakanum eftir viku. Á reyndar eftir að koma í ljós hvort ég fæ skráningargögnin í tæka tíð í sniglapósti frá landi hinna frjálsu og hugrökku - ef ekki þá verð ég bara betur undirbúinn "næst".

Sjálfsaginn er reyndar ekki upp á sérlega marga fiska þannig að heldur gengur yfirferðin hægar en ég hefði viljað. En er það ekki alltaf þannig þegar maður undirbýr sig fyrir próf?

Prófið byggist þá þremur þáttum: Stærðfræði, ensku/lesskilningi og tveimur stuttum ritgerðum. Ég hef aðallega verið að einbeita mér að stærðfræðinni enda líklegast að hún dugi til að hækka mig upp. Þessi dæmareikningur kitlar reyndar skemmtilega í mér raungreinanördinn því grunnstærðfræðin (formúlurnar) er ekki flóknari en ca. STÆ 101, en spurningarnar reyna þeim mun meira á skilning og rökhugsun. Að mörgu leyti áhugavert.

Skrapp svo út á lífið í gærkvöldi með Sæberg félaga mínum. Ferðin var farin undir yfirskini kaffihúsahittings sem þýðir að mannlífsúttekt frekar en áfengisneysla var í fyrirrúmi. Kíktum á helstu stoppistöðvarnar og krufðum gestahópa og stemmningar eitthvað fram yfir miðnættið.

Það að mitt fyrsta verk þegar heim var komið skyldi vera að hengja upp úr þvottavél segir líklega meira en flest annað um hvað djammið var geigvænlegt :)

Sjálfsagi dagsins slær engin met frekar en áður. Stefnir í að ég setjist ekki við lestur fyrr en kl. 2 og er á leið í fjölskyldukaffiboð upp úr klukkan 3! Og á eftir að fara í sturtu og raka mig...

Dagurinn enn ungur og vonandi mun fleira markvert gerast.


< Fyrri færsla:
Eftirför um nótt, 112 og sírenuvæl
Næsta færsla: >
Prófalán í óláni?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry