Prófalán í óláni?

Undanfarnar vikur hef ég verið að lesa mér til og æfa mig fyrir GMAT, sem er staðlað amerískt próf sem er inntökuskilyrði í flesta skóla sem bjóða MBA nám (eða skyld stjórnunarfög). Þetta próf er aðeins haldið einu sinni á ári á Íslandi, á morgun, en nú er ljóst að ég fer ekki.

Skráningarferlið er þannig að maður sendir fax til Bandaríkjanna (ekki hægt að senda t.d. til Evrópu) og boðar komu sína. Þá senda þeir ítarlegri gögn og skráningarform til baka í sniglapósti. Ekki er nú bandarísk póstþjónusta fræg fyrir að senda bréf hratt og örugglega yfir höf þannig að þetta er nokkurra vikna prósess. Ég vissi að ég var á tæpasta vaði með að senda faxið út og enn er sniglapósturinn ekki kominn til mín, þannig að ég er ekki með nauðsynleg skráningargögn og veit ekki einu sinni klukkan hvað prófið verður haldið suður á herstöð. Hefði ég haft rænu á því fyrr hefði ég eflaust getað fengið upplýsingar sendar í tölvupósti.

Ég hef áður kynnst stífni bandarískra bjúrókrata í tengslum við lénaskráningar (réttara sagt breytingar á rétthafaskráningu (þessa) léns) og áherslu þeirra á föx og pappír. Sannast sagna datt mér ekki í hug annað en að ég væri tilneyddur til að bíða eftir pappírspóstinum og það er ástæðan fyrir að ég grennslaðist ekki fyrir um það hvort hægt væri að hafa samband í tölvupósti fyrr en í dag. Ég prófaði að senda fyrirspurn og fékk til baka sjálfvirkt svar um að þau hlakki til að svara mér innan þriggja virkra daga.

Í fyrramálið fer ég því ekki í próf heldur niður í Ráðhús að hengja upp sýningu.

Ekki svo að skilja að öll framtíð mín sé í rúst þó ég fái ekki þetta bréf. Ég get enn tekið prófið með því að "skjótast" til London og aldrei að vita nema maður geri það þegar líður á veturinn.

Ég er hins vegar ekki enn búinn að sannfæra sjálfan mig um að MBA námið sé akkúrat það rétta í stöðunni. Það að spjalla við Höllu Sigrúnu um daginn dugði ekki alveg til. Ég trúi því að ég hafi mjög gott af því að prófa að fara í nám erlendis en er ekki alveg viss í hvaða nám...

Það er líklega ekki rétta leiðin að fara í eins til tveggja ára nám sem kostar að minnsta kosti 2-3 milljónir (fyrir utan tekjutap), bara til þess að prófa að búa í útlöndum. Þannig að núna hef ég tíma til að skoða í rólegheitum (hóst) hvaða kostir eru í stöðunni og hvað mig langar virkilega að gera. Ef ég held MBA línunni þá er ég a.m.k. með góðan grunn fyrir síðari tíma prófundirbúning og góða afsökun fyrir að skreppa til Lundúna.

Fleira er ekki fréttnæmt í dag, nema sú áhugaverða staðreynd að í dag borðaði ég hrossakjöt í fyrsta skipti í mööörg ár. Meyrt og gott folaldakjöt sem hæglega hefði verið hægt að ljúga að mér að væri naut!


< Fyrri færsla:
Skortur á sjálfsaga, hálfkák í næturbrölti
Næsta færsla: >
Loftfimleikar, fótabað og óvænt bað (út um allt bað)
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry