Loftfimleikar, fótabað og óvænt bað (út um allt bað)

Eins og áður hefur komið fram fór ég ekki í GMAT próf í dag. Þess í stað var ég niðri í Ráðhúsi frá því klukkan 10 í morgun að setja upp hina stórmerkilegu sýningu Lifandi landakort sem haldin er í tilefni af 15 ára afmæli Landupplýsingakerfis Reykjavíkur og þar sem ég mun teljast formaður undirbúningsnefndar.

Fyrsti glæpur dagsins var að ræsa Albert frænda út sem sérlegan aðstoðarmann. Sum skítverk eru þess eðlis að maður leggur þau ekki einu sinni á vini sína. Þá er gott að geta gripið til systkina eða annarra skyldmenna.

Vírar skrúfaðir í loft Tjarnarsalarins

Í stuttu máli sagt var ég allan morguninn og eitthvað fram eftir degi í körfu ofan á tjakki miklum að festa víra upp í loft í tjarnarsal Ráðhússins. Síðan voru hengd álrör mikil neðan í vírana og loks spjöld með myndum neðan í rörin. Þetta stóð fram undir kvöldmat (hafði reyndar gefið Albert frí eftir að hafa gefið honum hádegismat).

Loftmynd tekin úr ca. 5 metra hæð

Eins og oft vill verða í undirbúningshópum viðburða lendir framkvæmdahliðin á fáum herðum, a.m.k. vorum við ekki sérlega mörg sem vorum allan daginn að vinna, þótt sumir rækju inn nefið um stund.

Ég er orðinn vanur þessu. Veit ekki hvort um er að ræða svona sjúklega samviskusemi að mér finnist að ég verði að vera sá duglegi í hópnum eða hvort ég sé kannski svo stjórnsamur að ómeðvitað gefi ég frá mér einhver merki um að ég treysti ekki öðrum en mér til að framkvæma hlutina sómasamlega.

Hvað sem því líður þá lauk dugnaði um kvöldmatarleytið og ég ók heim á leið. Lét stúlkurnar á Subway um að elda ofan í mig kvöldmatinn og sá sófann í hillingum. Eftir að hafa staðið upp á endann allan daginn í skóm sem ég er ekki almennilega búinn að ganga til var ekki laust við að fæturnir héldu uppi þögulum en kröftugum andmælum. Ég ákvað því að láta renna í fótabað eftir kvöldmatinn.

Dró fram þvottabala og setti ofan í baðkarið og notaði síðan sturtuna til að fylla með balann. Ég var eitthvað að dunda mér fyrir framan spegilinn þegar nægilega mikið var komið í balann til að sturtuhausinn flaut upp og vatt upp á sig. Ég leit við og horfðist beint í augu við stóra vatnsbunu sem stóð í tignarlegum boga úr baðkarinu og framan í mig. Ég stökk til um leið með hláturskast frussandi upp úr mér, sneri sturtuhausinn niður og skrúfaði fyrir. Sá varla hálfa sjón fyrir blautum gleraugum, fann að ég var holdvotur og hristist af hlátri yfir því hvað þetta var absúrd.

Þegar ég hafði þerrað nægilega af gleraugunum til að sjá fram yfir nef mér kom í ljós að allt baðherbergið var rennandi blautt. Þessar 1-2 sek. höfðu dugað til þess að bleyta spegil, gólf, skápa, borð, tímarit og klósett. Það eina sem slapp var klósettrúllan sjálf - líklega vegna þess að andlitið á mér skýldi henni.

Verðskuldaða afslöppunin mín snerist því í björgunaraðgerðir og þerrun. Komst þó í verðskuldað fótabað skömmu síðar og dormaði yfir stórmyndinni The Princess Bride fram eftir kvöldi. "My name is Inigo Montoya. You killed my father. Prepare to die."

Þá er ekki fleira í þættinum í kvöld.


< Fyrri færsla:
Prófalán í óláni?
Næsta færsla: >
Lifandi landakort og bréfberi örlítið á eftir áætlun
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry