Lifandi landakort og bréfberi örlítið á eftir áætlun

Þá er öðrum degi hinnar merku afmælishátíðar lokið.

Opnunin var í gær, sunnudag, og var ég mættur glaðbeittur niður í Ráðhús um hádegið til að blása m.a. upp LUKR afmælisblöðrur með vetni. Efnafræðinámið kom að góðum notum við að tengja kútinn og uppblástur gekk vel. Við blésum blöðrurnar upp á skrifstofu Hreins kollega míns í Ráðhúsinu og það þurfti ákveðna lagni til því í helmingi skrifstofunnar er töluvert hærra til lofts en í hinum helmingnum. Þær voru nokkrar sem sluppu þangað upp og við göntuðumst með að nú hefði hann eignast nýja vini.

LUKR afmælisblöðrur stignar til himins

Merkilegt hvað maður verður fljótt aumur í fingrunum af því að hnýta fyrir svona helv. blöðrur. Ég var orðinn helaumur í löngutöng og baugfingri og kominn með djúp för neðan við fremstu kjúkurnar.

Setningin gekk vel og ykkar einlægur klúðraði engu í kynningum og stjórn. Þó klikkaði ég á því að taka ekki lappann upp í púltið og var því alltaf hálfskakkur að reyna að gægjast á skjáinn þegar ég kenndi á Borgarvefsjána. Spekingarnir okkar stóðu sig flestir með sóma þótt mér þætti mest gaman að þeim jafnöldrum mínum Stefáni sagnfræðingi Pálssyni og Guðmundi rithöfundi Steingrímssyni.

Eftir fyrirlestrana vorum við Hreinn vinsælustu mennirnir á svæðinu þegar við stilltum okkur upp og blésum upp gasblöðrur fyrir yngstu gestina. Þar á meðal var Ragnheiður Dóra JónsHeiðarsdóttir, sem hafði dregið pabba sinn á sýningu.

Í dag var svo "fræðilegi" hlutinn, þegar aðstandendur Landupplýsingakerfis Reykjavíkur héldu kynningar fyrir hádegi og eftir hádegi sögðu slökkvilið, neyðarlína, lögreglan, Strætó og Reykjavíkurhöfn frá sinni notkun. Ég og Albert landfræðingur settum svo lokapunktinn með stuttri sýnikennslu á Borgarsjána. Alltaf gaman að vera að kenna á eitthvað sem maður kann ekki sjálfur! Annars var ég aðeins búinn að fikta þannig að ég hefði líklega getað kjaftað mig eitthvað fram úr þessu án Alberts.

Eigum við ekki að segja að fyrirlesararnir hafi verið misgóðir... Á tímabili lá við að ég sem einn af skipuleggjendum fengi samviskubit yfir að leggja þessi ósköp á gestina, en gat sem skipuleggjandi leyft mér að standa upp og spássera spekingslega um þegar þannig stóð á. Sumir fyrirlesaranna stóðu sig með miklum sóma; léttir, skemmtilegir og fræðandi. Aðrir voru ... síðri. Áberandi hvað sumir voru háðir PowerPointinu og lásu í raun bara upp textann á sínum skyggnum.

Minnir mig á það að ég á alltaf eftir að koma í birtingu ofurgreininni minni um hvað ber að varast í PowerPoint. Ætli það verði ekki um svipað leyti og ég neyðist til að halda námskeið um PowerPoint í vinnunni :) (Nú glotta fyrrum vinnufélagar sem þekkja vel vantrú mína á AflPunktinum).

Eftir að ráðstefnunni lauk lufsaðist ég heim og sofnaði í sófanum. Var nývaknaður þegar dyrabjallann hringdi og bréfberi kom með símaskrárþykkan gagnabunka frá GMAT - einum vinnudegi of seint!

Það á kannski bara eftir að reynast ágætt. Fyrir vikið fór sýningin a.m.k. upp með sóma og kannski á ég ekkert að vera að rembast við MBA... Skýrist seinna.

Hluti af 14 metra löngu loftmyndinni

Lýkur þar með færslu þessari.


< Fyrri færsla:
Loftfimleikar, fótabað og óvænt bað (út um allt bað)
Næsta færsla: >
Borgin í síðbúið bítið og tölvutússað fram á nótt
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry