Borgin í síðbúið bítið og tölvutússað fram á nótt

Í morgun var, sem hluti af LUKR afmælishátíðinni, "Borgin í bítið" morgunfundur. Hann átti að hefjast klukkan 8:30 með morgunsnarli og ég vissi að ég yrði að sýna sjálfsstyrk og ná að rífa mig fram úr án teljandi tafa.

Það er eitt af einkennum þess að mikið sé að gera hjá mér í vinnunni að ég fer að vakna á undan vekjaraklukkunni. Blessunarlega er það yfirleitt ekki mikið fyrr, en getur verið ca. hálftími og hefur verið að koma fyrir oft undanfarnar vikur. Nú var klukkan stillt á að hringja um kl. 7:20 þannig að þegar ég vaknaði af sjálfsdáðun var ég ekkert sérlega sáttur. Reyndi fyrst að velta mér á hina hliðina en ákvað svo af einhverri rælni að pína mig með því að sjá hvað væri langt í að klukkan ætti að hringja.

Hux: "Ætli klukkan sé ekki mili 6 og 7..."

Hux: "Áhugavert... hún er 8:15!"

(Hef líklega gleymt að kveikja á henni í gær).

Eftir snarlega bruddan morgunverð hringdi gemsinn, Hreinn að láta mig vita af því að gleymst hefði að útvega fundarstjóra og spyrja hvort ég gæti tekið það að mér! Ég brunaði því niðureftir með stírurnar í augunum og engan vegin klár í röggsama fundarstjórn.

Sem betur fer hafði upphaf fundar tafist aðeins (ekki bara vegna mín) svo þetta slapp til. Það bjargaði mér svo að Hreinn hafði prentað út dagskrá þannig að ég gat lesið nöfn erindanna og flytjenda upp af blaði. Ég hef verið hressari en fyrsta hálftímann af þessum fundi þegar líkaminn var engan vegin vaknaður. Reyndar held ég að Borgin í bítið séu ekki miklir átakafundir og svo var heldur ekki að þessu sinni.

Við félagarnir, skrokkurinn og ég, hresstumst þó þegar á leið og í lokin stjórnaði ég fyrirspurnum og umræðum af röggsemi. Efast um að nokkur hafi áttað sig á því að ég var gersamlega óundirbúinn.

Þarna skilaði sér gamla kennarareynslan - hef stundum þurft að halda fyrirlestur um efni sem ég var ekki aaalveg með á hreinu þá stundina. Ekki orð um það meir.

Eftir hádegi var svo mjög fjörlegt barnaþing og slúttað með móttöku í boði borgarstjóra. Ég sá varla út úr augum fyrir syfju og hélt mig í appelsínusafanum. Í stað þess að fara snemma að sofa eins og duglegur drengur vakti ég fram yfir miðnættið við að fótósjoppa upp úr pínulitlum myndum teknum af vefnum "Wayne's World" lógóið í 300 dpi upplausn. Ógurleg helv. handavinna í að gera hnöttinn flottan, en fullkomnunarsinninn ég þrjóskaðist við eitthvað fram eftir nóttu. Lógóið sendi ég svo á merkt.is til að láta þau útbúa handa mér bol fyrir grímuball mikið sem er fyrirhugað næstu helgi.

Meira um þann bol síðar.


< Fyrri færsla:
Lifandi landakort og bréfberi örlítið á eftir áætlun
Næsta færsla: >
Þrotlausar rannsóknir
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry