Litli trommuleikarinn, hvítvín og heimsóknir

Eftir vinnu í dag skaust ég í klippingu og fór svo í Tónabúðina og keypti trommukjuða. Allt hluti af grímubúningnum góða.

Fór svo heim með bílinn og gekk niður í miðbæ þar sem Höfuðborgarstofa var að kynna nýtt markaðsátak og borgarstjóri bauð í léttvín og pinnamat. Gerði hvítvíninu betri skil en ég hafði gert í síðustu móttöku og rabbaði við kunnugleg andlit héðan og þaðan úr borgarkerfinu.

Að lokinni móttöku rölti ég upp á Lansa með reyfara og konfektkassa að heilsa upp á Halldóru mágkonu sem er á kvennadeild með of háan blóðþrýsting. Hún bar sig vel, enda finnur hún víst ekkert fyrir þessu sjálf, en þarf að hafa sig hæga til öryggis. Hjálpaði Ella að bera inn til hennar sjónvarp til að stytta henni stundir og rölti svo út í kvöldið eftir að hafa spjallað aðeins við þau hjónin.

Á leiðinni heim millilenti ég hjá Þorfinni (Halldórubróður) og fékk þar te og skýrslu um þróun mála í mastersritgerðinni hans. Sjúkdómsgreindi nýju fartölvuna hans: Ástæðan fyrir því að geislaskrifarahugbúnaðurinn virkar ekki í henni virðist vera sú að það er ekki geislaskrifari í henni! Treysti því að félagi Hafsteinn taki vel í að kippa því í liðinn.

Fleiri voru ekki heimsóttir þetta kvöldið.


< Fyrri færsla:
Gömul kynni og glæný bróðurdóttir
Næsta færsla: >
Þramm, djamm og dugnaður
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry