nóvember 2003 - færslur


Háls, höfuð og skrokkur í lagi, hár úfið

Vaknaði glaður og hress eftir grímuball. Náði meira að segja að sofa út og gladdist mjög yfir því. Það er eiginleiki sem ég tapaði að mestu niður við þrítugsafmælið, nú kemur allt of oft fyrir að um helgar vaknar maður klukkan 8 eða ámóta snemma þótt maður geti sofið út (og þyrfti þess oft).

Á eftir törn kemur leti

Það er merkilegt hvað ég verð stundum latur þegar vinnutörnum lýkur. Í september og október var töluverð törn í vinnunni, en núna frá mánaðarmótum hefur töluvert hægst um.

Gömul kynni og glæný bróðurdóttir

Það gerist allt of oft að maður ætlar að hafa samband við einhvern en einhvern vegin verður svo ekkert úr því, tíminn líður og fólk fjarlægist. Það kom mér skemmtilega á óvart að fá tölvupóst frá gamalli kærustu með spurningu um hvort við ættum að reyna hittast á kaffihúsi seinnipartinn í dag.

Þramm, djamm og dugnaður

Það fyrsta markverða sem gerðist í gær (laugardag) fyrir utan fyrstu myndir af frænkunni (einnig þekkt sem krílið) var að ég þvoði bílinn í fyrsta skipti í nokkra mánuði. Reyndar var hitastigið helst til nálægt frostmarki þannig að þvottaplanið var frosið að hluta og vatnið á þakinu varð krapakennt meðan á þvotti stóð.

Thorarinn.cominn frá Køben

Í gærkvöldi kom ég frá Kaupmannahöfn eftir að hafa verið þar um helgina. Það var afskaplega freistandi að sofa lengur í morgun í stað þess að mæta í vinnu, en eftir nokkuð strögl við sængina tókst mér að brjótast undan oki hennar og hafa mig á lappir. Mætti aðeins of seint í vinnuna, en þó nokkurn vegin innan eðlilegra marka.

Kynntist ungri konu

Í dag hitti ég í fyrsta sinn unga konu sem ég veit að á eftir að setja mark sitt á tilveru mína. Þetta var eitt af þeim skiptum þegar maður veit strax við fyrstu kynni að þau eru upphaf á einhverju meiru. Að vísu sýndi hún mér lítinn sem engan áhuga, en það er þá ekki í fyrsta skipti sem ég þarf að hafa fyrir því að ná athygli ungra kvenna.